spot_img
HomeFréttirKeflavík byrjar árið með látum: Hörður í hörkugír

Keflavík byrjar árið með látum: Hörður í hörkugír

 
Keflvíkingar sýndu sparihliðarnar í Hellinum í kvöld er þeir skelltu ÍR 88-112 í Iceland Express deild karla. Hörður Axel Vilhjálmsson fór mikinn í liði Keflavíkur með 27 stig, 12 stoðsendingar og 9 fráköst. Þá var nýji maðurinn í liði Keflvíkinga einnig sprækur en Thomas Sanders gerði 24 stig, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í sínum fyrsta leik fyrir liðið. Hjá ÍR var þeirra nýji maður, James Bartolotta, með 26 stig.
James Bartolotta hóf leikinn á bekknum hjá ÍR og Keflvíkingar léku án Lazars Trifunovic sem á dögunum tognaði á ökkla á æfingu í Keflavík.
 
Fjarvera Lazars hafði lítil áhrif á Keflvíkinga í fyrsta leikhluta en gestirnir úr Reykjanesbæ leiddu 13-24 að honum loknum. Kelly Biedler gerði 6 af 7 fyrstu stigum ÍR í leiknum og Nemanja Sovic fór á bekkinn með tvær villur eftir fjögurra mínútna leik. Jafnt var á með liðunum en á lokaspretti fyrsta leikhluta sigu Keflvíkingar fram úr að tilstuðlan nýja mannsins, Thomas Sanders, sem keyrði aðeins upp hraðann og skapaði Keflvíkingum auðveldar körfur.
 
ÍR opnaði annan leikhlutann 3-0 og minnkaði muninn í 16-27 en Keflvíkingar voru ekkert á þeim buxunum að hleypa heimamönnum nærri. Þröstur Leó Jóhannsson svaraði með þrist í næstu sókn gestanna og þrátt fyrir nokkur áföll í röð í liði gestanna sigu þeir hægt en örugglega framúr.
 
Á skömmum tíma fengu þeir Hörður Axel, Thomas Sanders og Jón N. Hafsteinsson allir sína þriðju villu í liði Keflavíkur en menn komu klárir af bekknum og fór þar fremstur Þröstur Leó Jóhannsson.
 
Þröstur kom Keflvíkingum í 27-46 með þriggja stiga körfu og það virtist hrista aðeins upp í heimamönnum sem með góðum lokaspretti náðu að minnka muninn í 12 stig og staðan 37-49 í hálfleik Keflavík í vil.
 
Eiríkur Önundarson var með 8 stig og 2 fráköst hjá ÍR í hálfleik en hjá Keflavík var Sigurður Þorsteinsson með 14 stig og Þröstur Leó kom með 11 stig af bekknum.
 
Keflvíkingar byrjuðu síðari hálfleik með látum, Hörður Axel Vilhjálmsson smellti niður þrist og breytti stöðunni í 43-58 og innan skamms var munurinn kominn upp í 20 stig, 44-64. Keflvíkingar sýndu fá veikleikamerki og virtust ekkert sakna Trifunovic sem fylgdist með meiddur af bekknum. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 66-79 Keflavík í vil en það voru þó ÍR-ingar sem áttu lokaorðið með svakalegri troðslu frá Kelly Biedler.
 
Sama hvað heimamenn reyndu þá voru Keflvíkingar einfaldlega númeri of stórir í kvöld og fengu flott framlag frá öllum þeim sem stigu inn á parketið. Halldór Örn Halldórsson og Jón N. Hafsteinsson virðast vera komnir í fínan gír eftir langvarandi meiðsli og nýji maðurinn Sanders passar vel inn í hópinn. Keflvíkingar eru klárir í að gera aðra atlögu að titlinum!

Að þessu sögðu mætast einmitt Snæfell og Keflavík í næsta deildarleik og þá leikur ÍR gegn Njarðvík í næstu umferð.

 
Dómararar leiksins: Björgvin Rúnarsson og Davíð Tómas
 
 
Myndir og umfjöllun: Jón Björn – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -