spot_img
HomeFréttirKFÍ stakk af á lokasprettinum

KFÍ stakk af á lokasprettinum

 
Um helgina báru KFÍ sigurorð af Þórsurum, 48-71 þegar liðin mættust í 8. umferð 1. deild kvenna í körfuknattleik. Leikurinn var þó jafnari en lokatölur gefa til kynna en Þórsarar héldu í við gestina framan af og það var ekki fyrr en í síðasta fjórðung sem gestirnir náðu að slíta sig almennilega frá Þórsurum og fögnuðu að lokum góðum sigri, 48-71.
Gestirnir mættu öflugar til leiks og náðu að skora sjö fyrstu stig leiksins áður Hulda Þorgilsdóttir skoraði fyrsta stig heimamanna af vítalínunni. Gestirnir voru ávallt skrefi á undan í fyrsta fjórðung og leiddu leikinn með tíu stiga mun, 8-18 þegar fyrsta fjórðungi lauk. Þórsarar mættu grimmar til leiks í öðrum fjórðung, með Huldu Þorgilsdóttur í fararbroddi náðu þær góðum 12-2 spretti og jöfnuðu þar með leikinn, 20:20. Gestirnir náðu þó að jafna sig á þessari mótspyrnu heimamanna og náðu átta stiga forskoti áður en hálfleiknum lauk. Gestirnir leiddu því 25-33 þegar liðin gengu til búningsklefa.
 
Gestirnir áttu í miklum vandræðum með að slíta sig frá heimamönnum og áttu í miklum vandræðum með að stöðva þær Huldu Þorgilsdóttur og Kristínu Eiríksdóttur en þær tvær settu niður 34 stig í dag. En gestirnir náðu þó góðum spretti undir lok fjórðungsins og leiddu með 11 stigum fyrir fjórða og síðasta fjórðung, 39-50. Þórsarar voru ekki með breiddina til að halda í við gestina í fjórða leikhlutanum og smá saman náðu KFÍ þægilegri forystu og fögnuðu í lokin góðum útisigri, 48-71.
 
 
Mynd/ www.kfi.is  – Hafdís og félagar í kvennaliði KFÍ gerðu góða ferð til Akureyrar um helgina.
 
Umfjöllun: Sölmundur Karl Pálsson
Fréttir
- Auglýsing -