spot_img
HomeFréttirMagnaður Snæfellssigur á Haukum í háspennuleik

Magnaður Snæfellssigur á Haukum í háspennuleik

 
Síðasti heimaleikur Snæfellsstúlkna fyrir skiptingu í A og B deildina fór fram í Stykkishólmi miðvikudaginn 12. janúar þegar að Haukar komu í heimsókn. Liðin voru að berjast um fjórða sætið í A-deild, en til þess þurftu Snæfellsstelpurnar að sigra með 12 stigum og vonast til að Grindavík myndu sigra Hauka í lokaleiknum fyrir skiptinguna. Niðurstaða kvöldsins var hinsvegar eitthvað sem Snæfellsstúlkur geta verið gríðarlega stoltar af 73-72 sigur á vel mönnuðu Haukaliði sem höfðu fyrir leikinn bætt hinni bresku Lauren Thomas Johnson við leikmannahópinn.
Byrjunarliðin:
Snæfell: Björg, Berglind, Monique, Hildur og Helga
Haukar: Íris, Kathleen, Lauren, Ragna og Helga.
 
Monique Martin opnaði leikinn og fór fyrir stigaskorinu hjá Snæfell sem héldu Haukaliðinu án stiga fyrstu fimm mínúturnar eða þangað til að Henning tók leikhlé. Berglind Gunnars og Monique sáu um stigaskorið fyrir heimastúlkur sem leiddu 6-0 og 12-7. Haukar fyrir tilstuðlan Kathleen Snodgrass sem lék gríðarlega vel fyrir þær rauðklæddu komust yfir 12-14, en af harðfylgi og fínum varnarleik leiddu Snæfell 16-15 eftir fyrsta leikhluta.
 
2-12 kafli Hauka í upphafi annars leikhluta gaf þeim níu stiga forystu en þær höfðu þá skipt yfir í svæðisvörn, staðan 18-27 áður en heimastúlkur fóru að sýna virkilega hvað í þeim býr. Frábær samleikur galopnaði vörn Haukanna og skiluðu allir leikmenn Snæfells frábæru framlagi. Sara Mjöll jafnaði leikinn með góðu skoti úr teignum 33-33, en Kathleen og Ragna Margrét komu Haukum yfir 33-38. Mögnuð þriggja stiga karfa frá Helgu Hjördísi dansaði ofaní á lokasekúndum annars leikhluta og staðan í hálfleik 36-38.
 
Í hálfleik var Monique Martin stigahæst hjá heimastúlkum með 13 stig og 7 fráköst, Helga Hjördís og Berglind Gunnars voru báðar með 7 stig. Hjá Haukum var Kathleen stigahæst með 18 stig og 4 fráköst og Ragna Margrét kom næst með 10 stig og 8 fráköst.
 
Berglind Gunnars skoraði fyrstu stig síðari hálfleiks en í kjölfarið komu níu stig frá Haukum sem leiddu á nýjan leik með níu stigum 38-47. Helga Hjördís og Monique minnkuðu muninn en Haukastúlkur voru skrefinu á undan á þessum kafla, leiddu með sjö stigum 45-52. Björg Guðrún smellti niður góðum þrist eftir frábæra sókn heimastúlkna og var frábær stemmning í íþróttahúsinu. Ellen Alfa sem hafði leikið fína vörn gerði sér lítið fyrir og dúndraði niður þrist sem kom stöðunni í 52-53. Haukar sem fengu góð stig frá heimastúlkunni Gunnhildi Gunnarsdóttur leiddu 52-58 og tæp mínúta eftir af þriðja leikhluta. Monique smellir þá niður þriggja stiga körfu og Haukastúlkur ná ekki að skora. Eftir mikla baráttu náðu Snæfellsstúlkur tveimur sóknarfráköstum og í þriðju tilraun jafnaði Monique leikinn með löngu þriggjastigaskoti, staðan eftir þrjá leikhluta 58-58 og andrúmsloftið rafmagnað hjá fjölmörgum áhorfendum í Stykkishólmi.
 
Monique opnaði svo fjórða leikhlutann með góðri körfu 60-58 og kom Snæfell aftur yfir eftir að hafa leitt síðast í lok fyrsta fjórðungs. Kathleen jafnaði með góðu skoti en þá smellti Björg Guðrún risaþrist og kom Snæfell yfir 63-60. Bryndís Hreinsdóttir jafnaði með alveg eins skoti og enn jókst rafmagnið í salnum. Frábær varnarkafli hjá Snæfelli skilaði þeim síðan þremur hraðupphlaupum þar sem Snæfell fengu mikið af vítaskotum. Staðan orðinn 69-63 og tæpar fjórar mínútur eftir af leiknum.
 
Snæfell þurftu að sigra með 12 stigum til að eiga möguleika á að komast upp fyrir Hauka í deildinni. Kathleen og Lauren stálu tveimur boltum í röð og skoruðu úr hraðupphlaupum þar sem þær fengu vítaskot að auki, staðan 69-68. Monique skoraði þá fyrir Snæfell af miklu harðfylgi, staðan 71-68. Íris Sverrisdóttir skoraði þá fyrir Hauka og staðan 71-70. Snæfellsstúlkur fengu í þrígang góð tækifæri sem þær misnotuðu og það nýttu Haukar sér ekki nógu vel, Lauren fékk tvö vítaskot sem bæði geiguðu og strax í næstu tveimur sóknum fékk Kathleen vítaskot. Hún nýtti einungis tvö af fjórum og staðan því orðinn 71-72 Haukum í vil og um 40 sekúndur eftir af leiknum. Haukar brutu þá á títtnefndri Monique sem var öryggið uppmálað á vítalínunni og kom Snæfell yfir 73-72. 23 sekúndur voru eftir af leiknum og keyrði Lauren upp að körfu Snæfell en Monique varði vel skot hennar, eftir mikla baráttu barst boltinn aftur til Lauren sem óð uppí sniðskot en Monique Martin sendi hana heim með tilþrifamiklu vörðu skoti og Björg Guðrún brunaði upp völlinn. Hún setti ekki niður erfitt sniðskot og eftir barning með frákastið rann leiktíminn út og Snæfellingar fögnuðu góðum sigri.
 
Frábær stemmning var á leiknum og fengu áhorfendur mikið fyrir sinn aur í kvöld. Lið Snæfells á hrós skilið fyrir sína frammistöðu þar sem stelpurnar spiluðu fantavel. Haukarstúlkur voru að vonum svekktar með annan tapleikinn í röð eftir æsispennandi lokasekúndur en þær munu leika í A-deildinni eftir skiptinguna þar sem einsstigs sigur dugði ekki Snæfellsstúlkum.
 
Stigaskor Snæfells: Monique Martin 31 stig og 18 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 11 stig og 4 stoðsendingar, Björg Guðrún Einarsdóttir 10 stig og 4 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 9 stig og 4 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 6 stig og 7 fráköst, Sara Mjöll Magnúsdóttir 3 stig og 3 fráköst, Ellen Alfa Högnadóttir 3 stig og 2 fráköst. Alda Leif Jónsdóttir skilaði yfirvegun sinni í leik liðsins og hefur hjálpað liðinu mjög mikið, Alda náði ekki að skora en daman villaði út í leiknum.
 
Stigaskor Hauka: Kathleen Patrica Snodgrass 29 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 12 stig og 12 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 8 stig og 3 fráköst, Lauren Thomas Johnson 7 stig og 4 fráköst, Íris Sverrisdóttir 7 stig og 3 fráköst, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 3 stig, María Lind Sigurðardóttir 3 stig og 3 fráköst, Sara Pálmadóttir 2 stig og 2 fráköst, Guðrún Ósk Ámundadóttir 1 stig.
 
 
Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín
Fréttir
- Auglýsing -