Breiðablik vann sinn þriðja leik í röð þegar hinir ungu og vösku sveinar í FSu heimsóttu Smárann í gærkvöldi. Eftir 40 mínútna leik urðu lokatölur, 76-53. Með sigrinum skutust Blikar upp í 5. sæti deildarinnar meðan FSu er í 2. sæti en er eitthvað að fatast flugið eftir að hinn kynngimagnaði Kani, Richard Field, hélt af landi brott.
Flott umgjörð var á leiknum þar sem yngstu iðkendur Blika leiddu leikmenn beggja liða inn á völlinn. Þessi fagra serímónía virðist hafa kveikt vel í Blikum því þeir hófu leikinn með látum. Heimamenn voru komnir með 10-0 forystu eftir skamma stund og svo aftur 12-2. Eftir það varð leikurinn aldrei spennandi. Valur Ingimundarson, þjálfari FSu, róteraði mikið í sínu liði án sýnilegs árangurs enda náðu gestirnir varla að gera yfir 10 stig í hverjum leikhluta.
Í þriðja leikhluta náðu Fjölbrautungar aðeins að minnka muninn en eftir mikla þrumuræðu Sæba, þjálfara Blika í einu leikhléinu vöknuðu Blikar aftur til lífsins. Heimamenn réðu lögum og lofum í teignum og unnu frákastabaráttuna enda með hávaxnari leikmenn.
Atkvæðamestur í liði Breiðabliks var Þorsteinn Gunnlaugsson og náði hann tvennu í leiknum og var óstöðvandi í teignum á tímabili. Aðrir leikmenn eins og Nick, Atli, Arnar P og Addi Páls voru sprækir aukinheldur sem gaman var að sjá ungu strákana spreyta sig.
Hjá FSu var Valur Orri mest áberandi en hefur örugglega oft hitt betur en á þeim iðjagræna í gærkvöldi.
Umfjöllun: Gylfi F. Gröndal