spot_img
HomeFréttirJón Arnór: Sumir kalla þetta álög en svona er sportið

Jón Arnór: Sumir kalla þetta álög en svona er sportið

 
Síðla síðasta árs meiddist Jón Arnór Stefánsson í leik með CB Granada í spænsku úrvalsdeildinni er hann reif innra liðband og liðþófa í hnéi. Búist var við því að Jón yrði frá í um tæpa tvo mánuði og nú er svo búið að Jón og læknar liðsins á Spáni setja markið fyrir endurkomu Jóns á sjötta febrúar og mikið seinna má það ekki vera þar sem Granada er á botni deildarinnar. Karfan.is ræddi við Jón sem m.a. er búinn að ganga í gegnum þjálfaraskipti upp á síðkastið.
,,Allt jákvætt að frétta af hnénu. Ég hef verið í stífri sjúkraþjálfun sem hefur gengið vonum framar. Ég byrjaði að hlaupa um daginn og markmiðið hjá okkur er þarnæsti leikur sem er 6. febrúar,” sagði Jón en Granada er á botni deildarinnar með aðeins þrjá sigra þetta tímabilið en í fyrra var liðið að berjast um sæti í úrslitakeppninni.
 
,,Útlitið er mun svartara ef við hugum að stöðu og gengi liðsins. Þar blása allt aðrir vindar og ekki okkur í vil. Ef ég á að vera raunsær, þá þarf kraftaverk til að snúa dæminu við. Við erum núna þremur sigrum á eftir Alicante og Manresa sem bæði eiga innbyrðisviðureignina á okkur. Þessi mánuður hefur verið stormasamur. Þjálfarinn var rekinn eftir stórt tap á móti Alicante fyrir rúmlega viku síðan. Ákvörðun sem kom lítið á óvart. Tveimur dögum seinna misstum við Robert Kurz, sem var okkar mikilvægasti leikmaður, hann fór til Þýskalands. Klúbburinn var kominn eftirá með greiðslurnar hans og hann kaus að segja upp samningnum og fara í þýsku deildina. Þetta er hans fyrsta ár í Evrópu og óvanur þeim aðstæðum þegar launagreiðslum seinkar,” sagði Jón en svo virðist sem hvert áfallið á fætur öðru hafi dunið yfir Granada þetta tímabilið.
 
,,Tímabilið byrjaði með því að við missum varaleikstjórnandann okkar í hnémeiðsli. Svo kom í ljós að hann yrði ekki meira með. Undanfarna tvo og hálfan mánuð hefur svo aðalleikstjórnandinn okkar, Nico Gianella, verið að glíma við meiðsli aftan í læri. Hann hefur lítið getað æft og oft vorum við án leikstjórnanda. Við fengum svo loksins leikstjórnanda lánaðan um áramótin sem hefur getað leyst hann af. Við vorum sem sagt með einn leikstjórnanda fyrstu umferðina og álagið á honum var mikið og útskýrir kannski meiðslin. Í síðasta leik misstum við svo Rússann, Korolev, sem sleit krossbönd og verður ekki meira með,” sagði Jón sem er síður en svo forlagatrúar.
 
,,Sumar kalla þetta álög en svona er bara sportið. Klúbburinn hefur lítið gert í því að fá nýja leikmenn yfir tímabilið og það er ekki fyrr en núna, þegar við erum komnir með bakið hálfa leið inní vegginn að eitthvað er farið að gerast. Við erum með arfaslaka menn í stöðu miðherja og kraftmiðherja sem hafa engan veginn verið að standa sig og það hefur verið okkar Akkilesarhæll allt tímabilið. Klúbburinn hefur sýnt þeim mikla þolinmæði og beðið eftir því að þeir átti sig og fari að spila betur. Þeir þurfa þá að semja við þá í helvíti langan tíma til að sjá það gerast. Skórnir mínir verða komnir á hilluna þá. Kurz var okkar eini stóri maður sem gat eitthvað og spilaði nánast 40 mínútur í leik,” sagði Jón bersögull um stöðu mála á Spáni.
 
,,Það er úr karakter hjá mér að vera svona neikvæður, en svona blasir þetta ástand við mér. Ég finn samt jákvæða orku frá nýja þjálfaranum og hann hefur gjörbreytt andanum í hópnum. Það voru vissulega vonbrigði að missa Rússann út á svona viðkvæmum tímapunkti en við höldum áfram veginn. Vonandi get ég eitthvað hjálpað til þegar ég byrja aftur,” sagði Jón en 6. febrúar næstkomandi leikur Granada gegn Zaragosa og þá stefnir Jón að því að vera í búning. Áður en að þeim leik kemur mætir Granada Barcelona á útivelli svo keppnismaðurinn Jón Arnór má bíta í það súra epli að missa af einni stærstu sviðsframkomunni á Spáni.
 
Fréttir
- Auglýsing -