Þrír leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld en þeir Jakob Örn og Hlynur Elías áttu ekki í vandræðum þegar 08 Stockholm HR kom í heimsókn til Sundsvall. Drekarnir höfðu öruggan sigur í leiknum og eru nú með 44 stig á toppi deildarinnar.
Lokatölur leiksins voru 100-67 þar sem Jakob Örn Sigurðarson var næststigahæstur í sigurliði Sundsvall með 19 stig og 6 fráköst. Hlynur lék ekki mikið í leiknum, aðeins rúmar 14 mínútur en skilaði af sér 9 stigum, 2 stoðsendingum og 2 fráköstum.
Karfan.is náði stuttu tali af Jakobi Erni eftir leik og kvað hann mikið sjálfstraust í herbúðum Sundsvall um þessar mundir. ,,Við erum bara nokkuð slakir og létt andrúmsloft þessa stundina. Við viljum náttúrulega tryggja fyrsta sætið sem fyrst og eigum Norrköping og LF eftir á heimavelli. Viljum vinna þau fyrir úrslitakeppnina því þetta eru liðin sem við verðum að berjast við eins og staðan er núna,” sagði Jakob en er það nokkuð leyndarmál að Sundsvall sé að taka stefnuna á titilinn?
,,Það er ekkert leyndarmál hjá okkur, teljum okkur vera með liðið sem getur unnið titilinn og annað væri vonbrigði.”
Hinir tveir leikir kvöldsins
Södertalje 69-54 Jamtland
Norrköping 104-93 ecoÖrebro
Mynd/ Jakob gerði 19 stig fyrir Sundsvall í kvöld.