,,Þetta var hörkuleikur og flott að við gátum klárað þetta svona eftir að hafa lent fimm stigum undir þarna í byrjun framlengingarinnar. Menn voru óhræddir við að taka af skarið í kvöld og fengum fullt af villum dæmdar á okkur og örugglega þær flestu í vetur svo menn voru aðeins að láta finna fyrir sér,“ sagði sigurreifur Guðmundur Jónsson eftir 104-102 sigur Njarðvíkinga á Keflavík Iceland Express deild karla en úrslitin réðust í framlengdum taugatitringi. Guðmundur fór mikinn í leiknum í kvöld og skoraði 24 stig og tók 8 fráköst í liði Njarðvíkinga.
Hvernig líður samt svona varnarjaxli eins og Guðmundi í leik þar sem bæði lið fara yfir 100 stig og 34 þriggja stiga körfur líta dagsins ljós?
,,Ég var auðvitað engan veginn sáttur við þetta en leikirnir geta stundum verið svona, það fór einfaldlega allt ofaní. Það var t.d. áhersla á það að leyfa Magga ekki að taka skot, við vorum að reyna að stoppa hann en þetta var bara einn af þessum dögum, hann setti allt ofaní,“ sagði Guðmundur og undirstrikaði svo mikilvægi sigursins í kvöld.
,,Þetta var rosalega mikilvægt, við erum að berjast um sæti í úrslitakeppninni og þessi sigur gefur okkur þvílíkt spark í rassinn og sjálfstraust, ekki spurning,“ sagði Guðmundur sem er ekki enn orðinn 100% heill af ökklameiðslum sínum, sjálfur kvaðst hann vera þó um 75-80% heill heilsu í fætinum.
Njarðvík mætir Haukum, KFÍ og Tindastól í síðustu þremur deildarleikjum sínum, hvernig líst Guðmundi á framhaldið. ,,Þetta eru liðin sem við erum að berjast við um sætin í úrslitakeppninni og það er ekkert annað en sigrar sem koma til greina enda veltur þetta allt á okkur sjálfum hvort við förum í úrslitakeppnina eða ekki. Ætlum við að vera einhverjir plebbar og horfa á úrslitakeppnina eða taka þátt í henni? sagði Guðmundur en hvernig leist honum á nýja liðsfélagann, Giordan Watson, sem setti 40 stig í kvöld.
,,Hann er rosalegur og það sást vel í dag að það er enginn sem ræður við hraðann á honum. Hann getur skotið, er ekki eigingjarn þó hann hafi skorað 40 stig í kvöld og þetta er maður sem við höfum þurft á að halda síðustu tvö tímabil.“