Helgi Már Magnússon og félagar í Uppsala Basket fengu skell á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Uppsala mættu Norrköping Dolphins og máttu þola 111-88 ósigur. Helgi var ekki í byrjunarliði Uppsala í kvöld en lék í 18 mínútur.
Helgi skoraði 8 stig á þessum 18 mínútum, tók 3 fráköst og var með 3 stolna bolta. Þrátt fyrir ósigurinn er Uppsala áfram í 5.-6. sæti deildarinnar ásamt Loga og félögum í Solna en Uppsala á enn einn leik til góða á Solna. Tapið í kvöld var svo fjórði deildarósigur Uppsala í röð.