spot_img
HomeFréttirBlóð, sviti og röndóttur sigur í Ljónagryfjunni í kvöld

Blóð, sviti og röndóttur sigur í Ljónagryfjunni í kvöld

 
Það var nokkuð ljóst að í Ljónagryfjunni yrði um hörkuleik að ræða er röndóttir heimsóttu þá grænklæddu í kvöld. Fyrir leik kvöldsins leiddu KR-ingar einvígið 1-0 og þurftu því bara einn sigur til viðbótar til að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar.
Það var á 2. mínútu sem Fannar Ólafsson braut á Jonathan Moore og í kjölfarið af þeirri villu lét Fannar einhver vel valin orð falla við Friðrik Stefánsson sem að lá á vellinum. Við þau orð uppskar hann tæknivillu og sína þriðju villu og var tekinn af velli af þjálfara sínum.
 
Leikhlutinn var hraður og mikið um stigaskor en það var KR sem leiddi eftir fyrsta leikhluta 26-31 þar sem Ólafur Már setti niður glæsilega 3ja stiga flautukörfu fyrir gestina.
 
Annar leikhluti byrjaði með sama hraða og sá fyrsti þar sem að Giordan og Marcus sýndu snilldartakta og á tímabili leit út fyrir að þetta væri hraðakeppni á milli þessarra tveggja leikmanna.
 
En það voru KR ingar sem að voru ávallt skrefi á undan með Pavel fremstan í flokki, þrátt fyrir góða baráttu Friðriks Stefánssonar undir körfunum og náði hann hverju frákastinu á eftir öðru, en ekkert virtist rata niður hjá heimamönnum. Gestirnir náðu mest 12 stiga forskoti þar sem að allt virtist detta niður hjá þeim. Staðan í hálfleik 46-51 gestunum í vil.
 
Seinni hálfleikur byrjaði á því að Jonathan Moore fékk dæmda á sig óskiljanlega tæknivillu og ætlaði allt um kolla að keyra í Ljónagryfjunni. Marcus klikkaði á fyrra skotinu, en setti seinna niður, staðan 46-52 gestunum í vil. Jóhann Árni rétti aðeins úr kútnum fyrir heimamenn með tveim glæsilegum þristum og staðan orðin 52-56. Þegar hér er komið við sögu er leikmönnum orðið ansi heitt í hamsi og var mikið um ljót brot og stympingar á milli leikmanna sem að er miður ljótt að sjá. Staðan í lok 3ja leikhluta 55-71 gestunum í vil.
 
Fjórði leikhluti hófst með 2 stigum frá Mr.Walker, en þessi stigamaskína hafði einungis skorað 5 stig í fyrri hálfleik og þegar hér var komið við sögu var hann kominn með 16 stig. Er fjórar mínútur voru liðnar af síðasta leikhlutanum fær Pavel dæmda á sig óíþróttamannslega villu er hann braut á Giordan. Heimamenn fá tvö víti og skora úr öðru. Staðan 66-79 gestunum í vil.
 
Er fjórar mínútur voru eftir fékk Walker dæmda á sig villu og í kjölfarið af þeirri villu fékk hann tæknivillu og fékk þar með að fjúka af velli með 5 villur. Staðan 72-82 og þrátt fyrir að þessi frábæri leikmaður spilaði ekki síðustu mínúturnar, þá náðu heimamenn ekki að minnka muninn, það voru gestirnir sem að juku forrystuna og lönduðu sigri 80-96.
 
Hjá Njarðvík voru það Jóhann Árni og Giordan sem að áttu frábæran leik og gaman að sjá að Jóhann Árni gafst aldrei upp, Frikki var mjög sterkur undir körfunni einsog áður sagði.
Hjá gestunum voru það Pavel, sem að átti frábæran leik, stórkostlegur leikmaður sem að virðist geta tekið hlutina í sínar hendur ef þörf er á, Brynjar Þór og Marcus sem að áttu einnig mjög góðan leik. Brynjar Þór þó mest áberandi í fyrsta leikhluta, Finnur sem að sýndi skemmtileg tilþrif á mikilvægum augnablikum, Hreggviður, Skarphéðinn, Jón Orri og Ólafur áttu allir góða innkomu.
 
KR er því komið í undanúrslit Iceland Express deildarinnar og varð fyrst allra liða til að tryggja sér þann farseðilinn á meðan Njarðvíkingar eru komnir í sumarfrí.
 
 
Heildarskor:
 
Njarðvík: Jóhann Árni Ólafsson 19, Giordan Watson 18/6 fráköst/10 stoðsendingar, Melzie Jonathan Moore 18, Nenad Tomasevic 9, Páll Kristinsson 6, Friðrik E. Stefánsson 4/12 fráköst, Guðmundur Jónsson 3, Egill Jónasson 2, Brenton Joe Birmingham 1, Kristján Rúnar Sigurðsson 0, Rúnar Ingi Erlingsson 0, Hjörtur Hrafn Einarsson 0.
 
KR: Marcus Walker 21, Brynjar Þór Björnsson 20, Pavel Ermolinskij 16/18 fráköst/9 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 12, Fannar Ólafsson 6/5 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 6/4 fráköst, Ólafur Már Ægisson 6, Skarphéðinn Freyr Ingason 5, Hreggviður Magnússon 4, Martin Hermannsson 0, Ágúst Angantýsson 0, Páll Fannar Helgason 0.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson
 
Umfjöllun: GÓS
Fréttir
- Auglýsing -