Keflvíkingar voru í hlutverki ræningja þegar þeir sigruðu og um leið slógu út spræka ÍR-inga í kvöld með 95 stigum gegn 90 í framlengdum leik. Leikurinn var í heild sinni í flottum gæðum en því miður þarf annað liðið að tapa og að þessu sinni voru það Breiðhyltingar.
Keflavík hóf leik af miklum krafti og skoruðu fyrstu 8 stig leiksins. Það var kannski í takt við allar þær spár sem höfðu farið fram fyrir leik þar sem afar fáir höfðu trú á ÍR í þessum leik. En þvert á spárnar voru það svo ÍR sem komu sterkir til baka og leiddu með 5 stigum í hálfleik. Öllum að óvörum nema þá hugsanlega öllum þeim fjölmörgu ÍR-ingum sem lögðu leið sína í Toyotahöllina.
Og áfram héldu gestirnir að þjarma að heimamönnum og spiluðu glimmrandi bolta. Varnarleikur heimamanna var afar slakur og þurftu gestirnir ekki að hafa mikið fyrir hlutunum. Það var ekki fyrr en að fimm mínútur voru eftir að heimamenn hræktu í lúkur sér og hófu að spila sína föstu vörn. Þeir uppskáru villur fyrir vikið en um leið riðlaðist leikur gestanna og þeir urðu mýkri í öllum sínum aðgerðum.
Vendipunktur eða í þessu tilfelli vendilína leiksins var vítalínan. Á síðustu tveimur mínútum venjulegs leiktíma brenna gestirnir af fjórum vítaskotum af 8. 50% vítanýting í svo mikilvægum leik, á útivelli gegn Keflavík mun einfaldlega ekki skila þér sigri. Keflvíkingar gengu á lagið og ná að jafna leikinn þegar 2 sekúndur eru eftir. ÍR náðu ekki að nýta sér þessar 2 sekúndur þannig að framlenging varð raunin.
Keflvíkingar tóku öll völd í byrjun framlengingar og náðu 8:0 áhlaupi áður en ÍR náði loksins að svara. Lokasekúndurnar voru svo æsispennandi og þrátt fyrir þetta áfall fyrir ÍR í byrjun framlengingar þá voru þeir aðeins hársbreidd og smá heppni frá því að ná að jafna en Keflavíkurmeginn datt þetta að þessu sinni.
ÍR er því komið í sumarfrí en Keflavík í undanúrslit hvar þeir mæta KR sem á heimaleikjaréttinn.
Keflavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 26/5 fráköst, Andrija Ciric 21/6 fráköst, Thomas Sanders 15/9 fráköst/6 stolnir, Hörður Axel Vilhjálmsson 11/5 fráköst/5 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 9/6 fráköst/5 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 8, Gunnar Einarsson 3, Jón Nordal Hafsteinsson 2/4 fráköst, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Halldór Örn Halldórsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0, Elentínus Margeirsson 0.
ÍR: Sveinbjörn Claessen 19, Nemanja Sovic 18/7 fráköst, Kelly Biedler 15/13 fráköst, James Bartolotta 14/4 fráköst, Eiríkur Önundarson 11/4 fráköst, Níels Dungal 11, Hjalti Friðriksson 2, Tómas Aron Viggóson 0, Þorgrímur Emilsson 0, Vilhjálmur Theodór Jónsson 0, Davíð Þór Fritzson 0, Ásgeir Örn Hlöðversson 0.
VIðtöl eftir leik mun koma á Karfan TV í fyrramálið.
Mynd/texti: SbS