Þórsarar máttu þola tap í síðasta heimaleik vetrarins þegar þeir lutu í grasi fyrir Valsmönnum, 74-96 en með sigrinum tryggðu Valsmenn sér sæti í Iceland Express deild karla á næstu leiktíð. Leikurinn var afar jafn í upphafi og liðin skiptust á að skora. Þegar líða tók á fyrri hálfleikinn náðu Valsmenn frumkvæðinu og leiddu leikinn í hálfleik með sjö stigum, 41-48. Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og juku forskot sitt jafnt og þétt. Lítið gekk upp hjá heimamönnum á meðan flest allt gekk upp hjá gestunum. Valsmenn lönduðu að lokum öruggum, 74-96 sigri og tryggðu sér þar með sæti í Iceland Express deild karla á næstu leiktíð.
Leikurinn byrjaði vel og bæði lið virtust mæta nokkuð vel stemmd til leiks. Liðin skiptust á að skora á upphafs mínútum leiksins. Valsmenn náðu þó frumkvæðinu um miðbik fyrsta fjórðungs. Ólafur Torfason hinn sterki leikmaður Þórs lenti snemma í villuvandræðum og fékk tvær vafasamar villur í upphafi sem hafði töluverð áhrif á varnarleik heimamanna. Dimitar Petrushev átti þó afar góða rispu fyrir heimamenn í fyrsta fjórðung og hélt heimamönnum á tímabili á floti, enda setti Dimitar 15 af sínum 17 stigum í fyrri hálfleik. Valsmenn leiddu engu að síður leikinn með tveimur stigum eftir fyrsta fjórðung, 24-26. Í upphafi annars leikhluta fékk Ólafur Torfason sína þriðju villu fyrir litlar sakir og þurfti því að taka sæti á bekknum. Sumir dómar virtust fara aðeins í pirrunar á heimamönnum enda leyfðu dómarar leiksins ekki mikla snertingu. Fátt virtist ganga upp hjá heimamönnum og lykilmenn eins og Konrad Tota og Wesley Hsu voru ekki að finna sig. Aftur á móti gekk flest allt upp hjá gestunum sem fengu framlög frá öðrum leikmönnum en þeim Perre og Wooten. Má nefna að Snorri Páll kom sterkur inn og setti 11 stig í kvöld. Bekkurinn hjá Valsmönnum var afar drjúgur í kvöld og skilaði inn 19 stigum. Þrátt fyrir fína spilamennsku gestanna, náðu þeir ekki að slíta sig frá heimamönnum en leiddu engu að síður leikinn með átta stigum, 41-48 þegar liðin gengu til búningsklefa.
Valsmenn mættu afar grimmir til leiks í síðari hálfleik og áttu strax 0-6 sprett og breyttu stöðunni úr 41-48 í 41-54. Sigurður Grétar tók því leikhlé til að stöðva þennan sprett gestanna. Leikhléið virtist þó ekki breyta miklu hjá heimamönnum sem áttu í miklum vandræðum með að finna glufur á vörn gestanna. Valsmenn leiddu leikinn nokkuð þægilega lengst af 3. fjórðung, en heimamenn náðu þó að minnka muninn niður í 9 stig og virtust ætla að hrökkva í gang, en heimamönnum vantaði herslu muninn til að minnka forskotið enn frekar. Leikmenn Vals héldu ró sinni og leiddu leikinn með tólf stigum, 60-72 fyrir síðasta fjórðung. Svo virtist vera að heimamenn væru hreinlega búnir á því í fjórða leikhluta. Sigurður Grétar aðstoðarþjálfari Þórs breytti úr maður á mann vörn í svæðisvörn en lítið gekk að brjóta Valsmenn á bak aftur. Wooten og Perre voru duglegir að finna hendur samherja sinna sem þökkuðu traustið, enda skoruðu allir leikmenn liðsins nema einn í kvöld. Smá saman juku gestirnir forskot sitt og að endingu var biliði á milli liðanna það mikið að heimamenn voru aldrei nálægt því að brúa bilið. Valsmenn náðu því að landa öruggum 22 stiga sigri, 74-96 og tryggja sér þar með sæti í Iceland Express deild karla á næsta tímabili.
Það sem skilaði Valsmönnum sigrinum í kvöld var framlag varamanna og aukaleikara. Mikið hefur mætt á þeim Perre og Wooten í fyrri tveimur leikjunum en í kvöld náðu aðrir leikmenn að stiga upp og kláruðu dæmið. Bekkurinn á Val skilaði inn 19 stigum á meðan bekkurinn hjá heimamönnum skilaði einungis 4 stigum. Lítið gekk upp hjá heimamönnum í kvöld og lykilmenn liðsins því miður langt frá sínu besta. Óðinn Ásgeirsson var að venju afar öflugur og setti niður 21 stig og reif niður 13 fráköst og var líklega eini sem spilaði af eðlilegri getu. Dimitar Petrushev var mjög áberandi í fyrri hálfleik en týndist í þeim síðari. Þjálfari liðsins, Konrad Tota hefur gjarnan spilað betur en hittni hans fyrir utan var óvenjulega slök og nærri helming stiga hans kom af vítalínunni. Hin öflugi Ólafur Torfason gat ekki beitt sér jafn mikið og hann vildi að sökum villuvandræða en skilaði engu að síður 12 stigum og níu fráköstum.
Eins og fyrr segir var skotnýting heimamanna ekki sú besta en þriggja stiga nýtingin í kvöld var einungis 17% og tveggja stiga skotnýtingin var rétt undir 50%. Hjá liði Vals voru þeir Perre og Wooten allt í öllu en fengu þó góða hjálp frá þeim Sigmari Eigilssyni og Snorra Pál Sigurðssyni en þeir tveir settu niður23 stig saman. En sanngjarn sigur Valsmanna í kvöld sem sannarlega geta fagnað vel og innilega eftir að hafa loksins stigið yfir lokahindrunina og spila því á næsta ári í Iceland Express deildinni.
Heildarskor:
Þór Ak.: Óðinn Ásgeirsson 21/13 fráköst, Dimitar Petrushev 17/4 fráköst, Konrad Tota 17/8 fráköst, Ólafur Torfason 12/9 fráköst, Wesley Hsu 3, Hrafn Jóhannesson 2, Benedikt Eggert Pálsson 2, Baldur Már Stefánsson 0, Stefán Karel Torfason 0, Sigmundur Óli Eiríksson 0, Björn B. Benediktsson 0, Sindri Davíðsson 0.
Valur: Calvin Wooten 32/5 fráköst/7 stoðsendingar, Philip Perre 24/8 fráköst, Sigmar Egilsson 12/4 fráköst, Snorri Páll Sigurðsson 11, Björgvin Rúnar Valentínusson 5/5 fráköst, Hörður Helgi Hreiðarsson 4, Birgir Björn Pétursson 3, Alexander Dungal 2, Hörður Nikulásson 2, Pétur Þór Jakobsson 1, Benedikt Blöndal 0.
Umfjöllun: Sölmundur Karl Pálsson