Huntsville Chargers féllu í nótt út úr úrslitakeppninni í 2. deild NCAA háskólakörfuboltans í Bandaríkjunum. Fjölnismaðurinn Árni Ragnarsson leikur með skólanum en hann kom ekki við sögu í leik næturinnar þar sem Chargers duttu út 95-91 eftir framlengdan leik.
Chargers höfðu aldrei áður komist í 8-liða úrslit 2. deildar og voru aðeins spölkorn frá því að komast í undanúrslit. Tveimur árum er því lokið hjá Árna með Chargers en í fyrra æfði hann sem ,,redshirt“ með liðinu og var ekki að spila og í ár glímdi Árni við erfið meiðsli en komst þó aftur á ról og varði restinni af leiktíðinni við að reyna að vinna sig inn í leikmannahóp liðsins og fékk nokkrum sinnum að spreyta sig í fáar mínútur.