Einn leikur er á dagskránni í kvöld í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna en þá mætast deildarmeistarar Hamars og Njarðvík í Hveragerði. Staðan í einvíginu er jöfn, 1-1 eftir sinn hvorn heimasigur liðanna en þrjá sigra þarf til þess að komast í úrslit deildarinnar.
Viðureignin hefst kl. 19:15 í Hveragerði en Hamar vann fyrsta leikinn 85-77 en dæmið snérist svo við í öðrum leiknum í Ljónagryfjunni þar sem grænar höfðu 86-78 sigur.
Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við Keflavík og KR þar sem staðan er einnig 1-1, báðir sigrar komu á heimavelli.
Njarðvíkingar bjóða uppá sætiferðir til Hveragerðis í dag. Lagt verður af stað frá Ljónagryfjunni kl. 17:45 og verð í rútuna kr. 500.
Ljósmynd/ SBS: Frá annarri viðureign Hamars og UMFN í Ljónagryfjunni.