Hinn litríki Nick Bradford hefur staðfest að ferill hans sem körfuboltamaður sé á enda. Þetta staðfesti Bradford í dag í samtali við Henry Birgi Gunnarsson blaðamann hjá Fréttablaðinu og Vísi. Vafalítið verður sjónvarsviptir af kappanum sem jafnan lætur dæluna ganga jafnt innan sem utan vallar.
Hér má lesa viðtalið við Bradford á Vísi í heild sinni en við ætlum líka aðeins að fylgja eftir þessari lifandi minningargrein sem NBA Ísland varð fyrst til að birta í gærkvöldi.
Nick Bradford kom fyrst til landins og lék með Keflavík tímabilið 2003-2004 og varð Íslandsmeistari á sínu fyrsta ári. Nick gerði 19,4 stig að meðaltali í leik með Keflavík þetta tímabil og í sama liði var hinn margfrægi Derrick Allen sem Keflvíkingar hafa löngum haft miklar mætur á. Allen staldarði aðeins við þetta eina tímabil á Íslandi og fór síðar til Þýskalands hvar hann gerði gott mót.
Eftir þessa fyrstu leiktíð í Keflavík átti Nick þó eftir að koma aftur til landsins og leika með já… öllum Suðurnesjaliðunum þremur og til að toppa þetta allt saman lék hann bæði með Njarðvík og Keflavík í sömu úrslitakeppninni á síðustu leiktíð. Eftir því sem næst verður komist er enginn annar en Nick Bradford sem á að baki leik með öllum Suðurnesjaliðunum þremur í úrvalsdeild karla. Nokkrir íþróttamenn eins og t.d. Ólöf Helga Pálsdóttir núverandi leikmaður Njarðvíkinga í kvennakörfunni hefur komið við hjá Suðurnesjaklúbbunum þremur, Njarðvík og Grindavík í körfubolta og svo Keflavík í kanttspyrnu.
Nick Bradford mun einna helst lifa í minningu fólks hérlendis sem litríkur leikmaður sem var manna líflegastur í hverjum einasta leik. Keflvíkingar eiga góðar minningar með kappanum en hans besta persónulega frammistaða var vafalítið með Grindvík leiktíðina 2008-2009 þegar Grindvíkingar höfnuðu í 2. sæti Íslandsmótsins eftir eitt besta úrslitaeinvígi Íslandssögunnar í körfuknattleik.
Grindavík mætti KR í úrslitum þar sem KR hafði betur 3-2 en Bradford skein skært í þeirri rimmu og hjólaði galvaskur í Vesturbæinga sem skipaðir voru ekki ómerkari mönnum á borð við Jón Arnór Stefánsson, Jakob Örn Sigurðarson, Helga Má Magnússon, Fannar Ólafsson og svona mætti lengi telja enda þetta KR-lið eitthvert það sterkasta sem komið hefur fram hérlendis. Nick bauð þeim birginn… með nokkur vel valin orð á vörum og glæstri frammistöðu er hann lét 146 stigum rigna yfir Vesturbæinga í fimm leikjum.
Nú segir Bradford að stefnan sé að komast að hjá þjálfarateymi í Bandaríkjunum og hann tekur ekki fyrir það að koma aftur til Íslands og jafnvel reyna fyrir sér í þjálfun enda kappinn búinn að eignast hér marga góða vini.
Við skulum slá botninn í þetta með nokkrum videoklippum af Nick Bradford:
Þessar og margar fleiri á lítilli vefsíðu sem heitir Youtube.com