Karfan.is greip í skottið á nokkrum körfuboltafræðingum og fékk þá til að rýna í oddaviðureign KR og Keflavíkur í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Sitt sýnist hverjum en einvígið hefur verið ein rússíbanareið og því ekki á vísan að róa annað kvöld þegar í ljós kemur hvort það verði KR eða Keflavík sem leiki til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn gegn Stjörnunni.
Daði Heiðar Sigurþórsson – fyrrum formaður KKD Snæfells
Ég vil nú byrja á að þakka báðum liðum fyrir frábæra skemmtun í síðustu 2 leikjum. Keflavík eru kannski ekki að spila sinn allra besta leik, en nokkuð nálægt því og "mómentið" er klárlega þeirra. Á sama tíma virðast KR-ingar ekki ná fram því besta sem í liðinu býr. Lykillinn að sigri Keflavíkur er að Magnús Gunnarsson spili vel og sé með 20 leik. Maggi er einfaldlega Hr. Keflavík og þegar hann spilar vel þá lítur Keflavík vel út. Svo er líka hægt að benda á punkta eins og að 2-3 svæðið haldi áfram að riðla leik KR, þeir þurfa að frákasta a.m.k. jafn mörgum boltum og KR og að Gunnar Einarsson verður að vera með 12 framlag. En númer 1 2 og 3, Magnús verður að eiga topp dag.
KR-ingar þurfa að vera meira smart, meira að segja Pavel er farinn að skjóta 20 þriggja stiga skotum í 2 leikjum. KR á klárlega að vera betra og breiðara lið, en eru bara ekki að notfæra sér styrkleika sína gagnvart Keflavík. Fannar þarf að berja smá geðveiki í varnarleikinn hjá þeim og þegar þeir frákasta mega þeir alveg keyra í bakið á Keflavík en ef þeir fá ekki auðvelda körfu á 1. tempói þá eiga þeir alltaf að setja boltann í hendurnar á Pavel. Að koma hreyfingu á og að brjóta svæðisvörn krefst þolinmæði. Boltinn þarf að rúlla inn og út úr teignum, menn þurfa að "kötta" í gegn og bíða eftir góða skotinu. Ef þeir gera þetta þá mun Keflavík þreytast í vörninni og vera í tómu veseni þegar líður á leikinn.
Ég hef trú á að leikurinn á fimmtudag verði gríðarleg skemmtun. Hátt spennustig og almenn skynsemi verða til þess að hann verður hægari en síðustu 2 leikir og skorið nær 80 en 100 stigum. Keflvíkingar halda áfram 2-3 svæðinu og það er eitthvað sem segir mér að sjálfstraust muni ríða baggamuninn. E.t.v. er það aðdáun mín á Magnúsi Gunnarssyni sem keppnismanni sem veldur, en ég spái Keflavík þriggja stiga sigri eftir rosalegan leik.
Baldur Beck – blaðamaður og körfuboltalýsandi
Það eina sem ég er viss um er að það verður mikil taugaspenna í byrjun leiks. Hugsa nú að KR hafi þetta. Annað hvort verður Keflavík yfir lengst af í leiknum en KR tekur þetta á lokasprettinum, eða KR stingur af snemma og klárar örugglega. Bæði lið eiga ef til vill skilið að fara áfram eins og staðan er í dag, en persónulega væri ég til í að sjá KR fara í úrslitin upp á stemninguna sem fylgir liðinu. Þá er ég alls ekki að segja að sé ekki stemmari með Keflavíkurliðinu, það toppar bara ekkert úrslitaleiki í vesturbænum.
Guðjón Þorsteinsson – KFÍ
Nú kemur að því hverjir hafa sterkari taugar og koma betur tilbúnir til leiks. Bæði lið hafa sýnt jafnan leik og ýmsir menn stigið upp þegar mest á reynir. Þeir sem hafa það í flimtingum að það hafi verið vanmat í gangi hjá KR eru á árabát á leið niður Amazon fljótið! Ekkert vanmat hjá hvorugu liði. Ég held að KR nái taki á leiknum snemma og mikið mun mæða á ,,Ísafjarðartröllinu“ og ef hann helst með fáar villur er allt opið hjá Keflavík, en ég hallast samt á KR sigur og þá vegna breiddar frá bekknum þeirra. Núna er komin smá þreyta í helstu menn og ég held að ástand KR sé ögn betra og þeir taki þetta með 7-13 stigum. ,,En enginn skal dæma sinn hrút fyrr en þuklað hefur verið"
Örvar Þór Kristjánsson – þjálfari Fjölnis
Ég hugsa að þetta verði algjör slagsmál og barningur. Keflvíkingar koma ,,ferskari“ inn eftir tvo sigurleiki í röð en KR-ingar hafa gullið tækifæri á að sýna sinn karakter. Það verður heitt í kolunum og þvíík veisla fyrir stuðningsmenn beggja liða. Stemmingin verður rafmögnuð í DHL höllinni og trúi ég því að áhorfendamet verði slegið!. Eitthvað segir mér að Keflavík klári þennan leik, þeir eru komnir með blóðbragð í munninn. Þetta er ekki leikur sem maður tæki á Lengjunni. Keflavík vinnur með 3 stigum! Takk fyrir skemmtunina segi ég við bæði lið, þessi sería er orðin legendary!
Tómas Þór Þórðarson – íþróttfréttamaður hjá DV
Fyrir þremur árum horfði ég á Keflavík koma til baka gegn frábæru liði ÍR úr að því virtist ómögulegri stöðu. Ég sé sama svægið (c)NBAÍsland í Keflavíkurliðinu nú og þá er það kom til baka og vann 3-2. Ekki síst þegar ég horfi á Magga Gunn sem er keflvískur körfubolti. Þegar hann er farinn að þrista sig í gang og hlæja í viðtölum eftir sigur í framlengingu er Keflavík með blóð á tönnum. Þetta verður spennandi í DHL-höllinni en ég held að kraftur Keflavíkur hafi breidd KR í oddaleiknum.
Breki Logason – sjónvarpsfréttamaður hjá Stöð 2
Ég var nú búinn að spá því að KR-ingar færu taplausir í gegnum úrslitakeppnina eftir yfirburðina gegn Njarðvík. Keflvíkingar hafa hinsvegar sýnt gríðarlegan karakter og spilað af mikilli skynsemi. KR-ingar virðast eiga í nokkrum vandræðum þessa stundina en aldrei má afskrifa jafn sterkt lið og þeir eru. Hinsvegar eru svo miklir karakterar í þessu Keflavíkurliði sem kunna þetta allt saman. Þeir hitta úr stóru skotunum og stoppa þegar þarf að stoppa. Ég held að þeir haldi því áfram þriðja leikinn í röð og fari áfram eftir dínamískt kvöld í DHL-höllinni.
Mynd/ Tomasz Kolodziejski