Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar í unglingaflokki karla eftir sigur á Haukum í úrslitaviðureign liðanna í Laugardalshöll. Njarðvíkingar tóku frumkvæðið snemma í leiknum og má segja að grænir hafi stjórnað sýningunni frá upphafi til enda. Lokatölur voru 76-63 Njarðvík í vil þar sem Ólafur Helgi Jónsson var valinn besti maður leiksins með 20 stig, 12 fráköst og 3 stolna bolta í liði Njarðvíkinga.
Njarðvíkingar voru mun frískari í upphafi leiks og komust í 12-6. Oddur Birnir Pétursson fann sig vel í upphafi leiks og gerði 13 stig í fyrsta leikhluta, þrjú þeirra komu Njarðvíkingum í 17-10 og skömmu síðar var staðan orðin 27-14 en þá var Ívari Ásgrímssyni þjálfara Hauka nóg boðið og fann sig nauðbeygðan til að tjá sig við dómara leiksins og fékk tæknivíti að launum.
Maciej Baginski kom Njarðvíkingum í 32-19 með þriggja stiga körfu þegar 40 sekúndur voru eftir af leikhlutanum en Íslands- og bikarmeistarar Hauka svöruðu í sömu mynt og staðan 32-22 fyrir Njarðvík að loknum fyrsta leikhluta þar sem vörn Hafnfirðinga var í molum.
Liðin hertu bæði róðurinn í vörninni í öðrum leikhluta og Hafnfirðingar náðu að minnka muninn í 35-30 en Njarðvíkingar sigu á ný framúr, komust í 40-32 og leiddu svo 46-37 í hálfleik eftir flautuþrist frá Óla Ragnari Alexanderssyni.
Þristurinn frá Óla undir lok fyrri hálfleiks virtist leggjast vel í græna sem voru mun betri í þriðja leikhluta. Varnir liðanna voru áfram gríðarlega sterkar en svæðivörn Hauka var ekki að ná þriggja stiga skotum úr Njarðvíkingum sem fundu oft glufur á vörn Hafnfirðinga og leiddu því 59-46 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Njarðvík vann því þriðja leikhluta 13-9 og ljóst að í fjórða leikhluta yrði barist til síðasta blóðdropa.
Haukar gerðu fjögur fyrstu stigin í fjórða leikhluta og minnkuðu muninn í 59-50 en varnarleikurinn var enn í fyrirrúmi eins og tölurnar úr þriðja leikhluta gáfu til kynna en þar skoruðu liðin aðeins 22 stig samtals!
Ólafur Helgi Jónsson setti tvo sterka Njarðvíkurþrista þegar nokkrar mínútur voru til leiksloka en sá síðari breytti stöðunni í 68-52 Njarðvík í vil. Munurinn orðinn 16 stig og miðað við varnarhörkuna í leiknum þá voru Haukar ekki á leið að komast upp að hlið Njarðvíkinga sem svo kláruðu dæmið 76-63 og fögnuðu vel og innilega Íslandsmeistaratitli sínum.
Ólafur Helgi var atkvæðamestur Njarðvíkinga í dag með 20 stig, 12 fráköst og 3 stolna bolta. Styrmir Gauti Fjeldsted bætti við 19 stigum, 6 fráköstum og 3 stoðsendingum og Oddur Birnir Pétursson lauk leik með 18 stig og 4 fráköst. Hjá Haukum var Örn Sigurðarson með 19 stig og 8 fráköst og Emil Barja gerði 12 stig, tók 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar og þá bætti Haukur Óskarsson við 12 stigum.