spot_img
HomeFréttirMarcus: Erum í góðu jafnvægi

Marcus: Erum í góðu jafnvægi

 
,,Komandi inn í þennan leik vissum við að þetta yrði erfiður leikur, við vildum bara mæta og leika af hörku. Stjarnan hefur verið í hvíld undanfarið en það getur enginn beitt fyrir sig neinum afsökunum á þessum tímapunkti, sama hvort við séum að koma úr fimm leikja seríu eða þeir úr góðri hvíld. Þetta eru úrslitin og bæði lið þurfa að vera klár í slaginn og mér fannst við hafa leikið afar vel í dag,“ sagði Marcus Walker eftir 108-78 stórsigur KR-inga á Stjörnunni í kvöld. Walker byrjaði rólega í kvöld en eldibrandurinn lauk leik með 23 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta.
KR-ingar lentu í töluverðum villuvandræðum í kvöld en spiluðu vel úr því þar sem allir komu inn með gott framlag hjá röndóttum.
 
,,Stundum er þetta misjafnt með villurnar en það hjálpaði okkur mikið í kvöld að hafa góða dýpt á bekknum, þetta höfum við getað gert í allan vetur, erum með reynda leikmenn með töluvert af mínútum á bakinu sem koma inn af bekknum og hjálpar mikið,“ sagði Walker en KR-liðið var einnig að skjóta vel í kvöld, 16 þristar lágu í valnum.
 
,,Við viljum halda að við séum þriggja stiga lið en við höfum einnig marga sterka leikmenn í teignum sem við getum leitað til sem geta bjargað okkur skotmönnunum þegar ekkert gengur fyrir utan. Við erum lið í góðu jafnvægi með marga leikmenn sem geta tekið af skarið, í þessari rimmu treystir liðið á að ég leiki góða vörn á Justin Shouse og þá skiptir tölfræðin mig engu máli. Ég geri það sem ætlast er til af mér og vonandi verður það nóg,“ sagði Walker og gat vart annað en verið ánægður með stóru leikmenn KR liðsins í kvöld sem stóðu vaktina af festu í fjarveru Fannars Ólafssonar.
 
,,Við vitum hvað þessir leikmenn geta, þetta er ekkert nýtt fyrir okkur þegar þeir stíga upp og menn eru einbeittir, enginn tekur eina mínútu sem sjálfsögðum hlut og við vitum að til að vinna þessa seríu þarf samstillt átak og mikla orku,“ sagði Walker en við hverju býst hann frá Garðbæingum á fimmtudagskvöld?
 
,,Ég veit það ekki, Hrafn segir okkur að hafa ekki áhyggjur af því sem andstæðingarnir eru að gera heldur einbeita okkur að okkar leik. Þannig að sama hvað Stjarnan kemur með, svæði eða pressu þá höfum við farið í gegnum þetta allt og að mínu mati hefur Hrafn gert vel í að undirbúa okkur,“ sagði Walker sem á dögunum átti von á móður sinni til landsins til að fylgjast með honum í úrslitakeppninni en hún er ekki væntanleg fyrr en KR mætir Stjörnunni í öðrum leik úrslitaseríunnar.
 
,,Hún er ekki komin, hún kemur vonandi á morgun og verður vonandi á leiknum á fimmtudag. Ég bíð spenntur eftir komu hennar því hún er besti vinur minn og hefur fórnað ýmsu svo ég gæti gert það sem ég er að gera og séð heiminn svo ég get vonandi endurgoldið henni greiðann.“
 
Mynd úr safni/ Þorsteinn EyþórssonMarcus Walker segir KR-inga í góðu jafnvægi.
Fréttir
- Auglýsing -