Nýliðavalið í WNBA deildinni fór fram í kvöld og komst Helena Sverrisdóttir ekki að í valinu þetta árið. Í ýmsum spám fyrir nýliðavalið hafði Helena verið á hinum og þessum spá-listum en ekki gekk þetta eftir og sagði Helena í snörpu samtali við Karfan.is að vissulega hefði það átt sinn þátt í þessari niðurstöðu að TCU tókst ekki að komast í 64-liða úrslit NCAA deildarinnar.
,,Ég vissi allan tímann að þetta yrði langsótt, það þarf svo margt að ganga upp til að komast inn, það að við í TCU náðum ekki inn í NCAA úrslitakeppnina gerði þetta enn erfiðara,“ sagði Helena en nú tekur við undirbúningur fyrir næstu leiktíð með Good Angels í Slóvakíu. Fyrst á dagskrá er samt að njóta lífsins aðeins í Ameríku þar sem Helena er nú stödd og býr sig undir að segja endanlega skilið við TCU þar sem hún hefur dvalið síðastliðin fjögur ár.
,,Framhaldið hjá mér skýrist bara á næstu vikum en ég verð pottþétt eitthvað heima á Íslandi í sumar,“ sagði Helena og ekki loku fyrir það skotið að henni takist jafnvel að setja saman stelpubúðir sem hafa notið vinsælda hjá henni og Maríu Ben Erlingsdóttur.
Varðandi nýliðavalið sjálft voru umferðirnar þrjár og 12 leikmenn valdir í hverri umferð. Maya Moore leikmaður Connecticut var valin fyrst í fyrstu umferðinni af Minnesota Lynx en Moore er framherji sem gerði 22,9 stig að meðaltali í leik fyrir Connecticut á þessu tímabili og var valin besti leikmaður í Big East deildinni 2008-2011.