spot_img
HomeFréttirHver tekur við Keflavíkurlestinni ?

Hver tekur við Keflavíkurlestinni ?

Mál manna þessa dagana í Keflavíkinni er hver muni taka við karlaliði þeirra. Guðjón Skúlason hefur sagt starfi sínu lausu og því mikil spenna um hver muni taka við liði þeirra fyrir næstu leiktíð en stjórnin þar á bæ hefur sagst vilja ganga frá þessu sem allra fyrst. Karfan.is rýndi lauslega í þá möguleika sem Keflvíkingar standa frammi fyrir og það ætti að vera úr nógu að velja.
Sigurður Ingimundarson:
Þetta hlýtur að vera fyrsti kostur þeirra Keflavíkinga þar sem kallinn er hokinn af reynslu í bransanum og hefur skilað þeim nokkrum titlum í safnið. Staðfest hefur verið að Keflvíkingar séu í viðræðum við hann og þá á eftir að koma í ljós hvort hann taki einungis við karlaliðinu en sagan á strætinu segir að hann taki jafnvel einnig við kvennaliðinu en það virðist vera í tísku (KR – Snæfell – Valur – Hamar)
 
Falur Harðarson:
Falur var með liðið á sínum tíma þegar það varð Íslandsmeistari ásamt Guðjóni Skúlasyni. Falur var nú í vetur aðstoðarþjálfari hjá kvennaliðinu sem varð Íslands- og bikarmeistari þó svo að það hafi lítið verið fjallað um hans hlut þar. Falur þjálfar sem stendur stúlkna- og unglingaflokk kvenna og er nýbúinn að landa þar Íslandsmeistaratitli. 
 
Sverrir Þór Sverrisson: 
Sverrir er uppalinn Keflvíkingur og hefur gert kvennalið þeirra að Íslandsmeisturum hér fyrr á árum. Sverrir er þó samningsbundinn í Njarðvíkinni samkvæmt heimildum Karfan.is þar sem hann er að skila nokkuð góðum árangri. Vissulega væri það verðugt tækifæri fyrir hann að taka við karlaliði Keflavíkur. 
 
Jón Guðmundsson:
Flestir þekkja Jón þessa dagana í gráa búningnum að halda uppi reglum á vellinum. Jón hefur þjálfað meistaraflokk Þórs Akureyri og Stjörnunnar. Sem stendur þjálfar hann yngriflokka í Keflavík ásamt því að sinna dómarastarfinu.  
 
Einar Einarsson: 
Einar hefur þjálfað á þó nokkrum vígstöðvum eins og t.d. Grindavík og hjá Haukum. Einar hefur hingað til verið yfirþjálfari hjá yngriflokkum Keflvíkinga og vissulega ætti hann að koma til greina í starfið.
Fréttir
- Auglýsing -