Ágúst Sigurður Björgvinsson er hættur sem þjálfari karla- og kvennaliðs Hamars í körfuknattleik. Ágúst sagði í samtali við Karfan.is að honum fyndist kominn tími til að skipta og tími væri kominn fyrir félagið að fá inn einhvern annan í brúnna.
Ágúst sagði starfi sínu lausu í kvöld og því ekki annað starf sem bíður hans í augnablikinu. ,,Maður getur verið ágætlega sáttur við árangurinn en kvennaliðið hafnaði í 2. sæti Íslandsmótsins í fyrra og varð deildarmeistari á þessari leiktíð. Fleiri afrek voru unnin því unglingaflokkurinn varð bikarmeistari í fyrra sem var fyrsti titill félagsins í yngri flokkum. Í ár fór unglingaflokkur í bikarúrslit og í ár lék hann í undanúrslitum Íslandsmótsins. Hamar var þarna í nýjum sporum svo maður getur verið ágætlega sáttur við árangurinn,“ sagði Ágúst en framhaldið er óráðið hjá þjálfaranum sem hefur síðustu fjögur ár verið á mála Hvergerðinga.
Ágúst segir því skilið við Hamar þetta tímabilið og skilar af sér kvennaliðið félagsins með deildarmeistaratitil og besta árangur liðsins í sögu félagsins í deildarkeppni úrvalsdeildar. Karlaliðið mátti hann sjá niður í 1. deild eftir hnífjafna og æsispennandi baráttu í deildarkeppninni þar sem Hvergerðingar lögðu m.a. toppliðin KR, Keflavík og fleiri sterka andstæðinga en féllu engu að síður.
Síðastliðin níu ár hefur Ágúst staðið að æfingabúðum sem jafnan hafa verið vel sóttar og hyggur Ágúst á að engin breyting verði þar á þetta sumarið og því í tíunda sinn sem hann stendur fyrir æfingabúðum ef allt gengur eftir.