spot_img
HomeFréttirKR kom, sá og sigraði: Íslandsmeistarar 2011 (Umfjöllun)

KR kom, sá og sigraði: Íslandsmeistarar 2011 (Umfjöllun)

 
KR eru verðskuldaðir Íslandsmeistarar eftir öruggan og virkilega góðan sigur á Stjörnunni í Ásgarði í kvöld. KR spilaði virkilega vel en þeir hreinlega keyrðu yfir Stjörnuna á tímabili með Marcus nokkurn Walker í broddi fylkingar sem var krýndur mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar í lok leiks, vel að titlinum kominn. KR kláraði leikinn strax í upphafi þriðja leikhluta þegar þeir náðu forskotinu upp í 20 stig og litu í raun aldrei aftur. Stigahæstur í liði KR var auðvitað Marcus Walker sem tók sig til og setti niður 40 stig. Næstir á blað voru Finnur Magnússon með 20 stig og Brynjar Björnsson með 12 stig. Hjá Stjörnunni voru það Jovan Zdravevski og Renato Lindmets með 20 stig hvor og Marvin Valdimarsson með 14 stig.
Leikurinn var í járnum fyrstu mínúturnar en þegar staðan var 6-4, Stjörnunni í hag tóku KR góða rispu og breyttu stöðunni í 6-12 á aðeins 2 mínútum. Þegar leikhlutinn var hálfnaður munaði svo 5 stigum á liðunum, 9-14. Finnur fór mikinn í liði KR og skoraði 11 stig af fyrstu 23 stigum KR í leiknum, hann nældi sér þó í sína aðra villu þegar 2 mínútur voru eftir af leikhlutanum og var settur á ís. KR leiddi leikinn það sem eftir lifði fyrsta leikhluta og náðu 11 stiga forskoti þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum, 16-27. Brynjar “funheitur” Björnsson kláraði svo leikhlutan fyrir KR með stæl þegar hann setti niður seinasta skot leikhlutans fyrir utan þriggja stiga línuna og leiddu gestirnir því með 13 stigum eftir fyrsta leikhluta, 19-32.
 
Stjarnan náði að laga stöðuna í upphafi annars og þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar höfðu þeir náð að minnka muninn niður í 6 stig, 29-35, og Hrafn Kristjánsson tók leikhlé fyrir KR. Stjarnan var farin að loka á sóknarleik gestanna og uppskáru bróðurlega. KR átti þó svar og þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn aftur kominn upp í 9 stig, 30-39. KR spilaði hratt á Stjörnuna eins og þeir hafa gert í seinustu leikjum og ennþá gekk erfiðlega hjá Stjörnunni að stöðva hinn eitursnögga Marcus Walker. Finnur var ennþá í fantagír fyrir gestina og var búinn að splæsa í 16 stig þegar Teitur Örlygsson tók leikhlé fyrir Stjörnuna, 33-42 og tæplega fjórar mínútur eftir af fyrri hálfleik. Á lokamínútum annars leikhluta keyrðu KR af fullum krafti í bakið á Stjörnunni sem voru komnir 14 stigum undir þegar flautað var til hálfleiks, 40-54.
 
Stigahæstur í liði KR í hálfleik var Finnur Magnússon sem átti stórkostlegan fyrri hálfleik með 16 stig en næstir voru Marcus Walker með 15 stig og Brynjar Björnsson með 7 stig.
Hjá Stjörnunni vour þrír leikmenn jafnir með 8 stig hver, Jovan Zdravevski, Justin Shouse og Fannar Freyr Helgason.
 
Arion Banki bauð uppá skemmtiatriði í hálfleik þar sem þeir reyndu troðslur af ótrúlegustu gerð fyrir komandi auglýsingu. Það er óhætt að segja að hundurinn lepjandi hafi boðið uppá gott skemmtiatriði þar sem hann tróð boltanum með stæl eftir heljarstökk af trampólíni.
 
Finnur Magnússon nældi sér í sína fjórðu villu strax á upphafsmínútu þriðja leikhluta fyrir ólöglega blockeringu. Það kom þó ekki að sök því munurinn var kominn upp í 18 stig þegar ein og hálf mínúta var liðin af leikhlutanum, 43-61. Jovan gerði sér lítið fyrir og skoraði úr 4 vítum í næstu sókn eftir það, fékk þrjú víti, nýtti fyrstu tvö, tók frákastið sjálfur eftir þriðja skotið, fór upp og fékk aðra villu og nýtti bæðin vítin, 47-61. Jovan setti svo niður þrist stuttu seinna og var munurinn því kominn niður í 11 stig, 50-61, þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum og KR tók leikhlé. Það var ekki langt í svar KR því mínútu seinna var Marcus Walker búinn að stela boltanum tvisvar sinnum, bruna upp í hraðaupphlaup og setja þrist. Á meðan sungu stuðningsmenn KR “MVP, MVP” og Teitur tók leikhlé, 50-67. Marcus stal næsta bolta strax í fyrstu sókn Stjörnunnar eftir leikhlé en í þetta skiptið sendi hann boltanum á Pavel sem setti niður þrist og stærsta forskot KR í leiknum staðreynd, 50-70. Pavel nældi sér í sína fjórðu villu þegar þriðji leikhluti var rétt rúmlega hálfnaður en það olli KR-ingum líklega ekki miklum áhyggjum þar sem þeir virtust hreinlega vera að sigla titlinum heim. Á meðan stemmingin skein af KR liðinu virtist pirringurinn vera að fara alltof illa með heimamenn sem voru 21 stigi undir þegar flautað var til loka þriðja leikhluta, 62-83.

 
Marcus Walker var eini byrjunarliðsmaður KR sem fékk að byrja fjórða leikhluta og því óhætt að segja að Hrafn Kristjánsson hafi verið að nota bekkinn til hins ítrasta. Í fjórða leikhluta komu líka Kjartan Atli og Ólafur Aron inná fyrir Stjörnuna sem höfðu ekkert spilað til þessa í leiknum. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir Stjörnunnar til þess að minnka muninn virtist það duga skammt því alltaf átti KR svar. Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður hafði KR 19 stiga forskot, 73-92 og virtist því það því aðeins vera formsatriði fyrir gestina að klára leikinn. Hrafn Kristjánsson tók leikhlé stuttu seinna en þá hafði Stjarnan skorað 4 stig í röð og munurinn því kominn niður í 15 stig, það minnsta í leikhlutanum. Stjarnan braut ítrekað á Pavel í fjórða leikhluta en hann var meirihluta leikhlutans á vítalínunni og virtist úr fjarðlægð ekki skemmt. Stjarnan tók að pressa stíft eftir því sem leið á leikhlutan en munurinn minnkaði þó hægt. Þegar tvær og hálf mínúta voru eftir stóðu tölur 85- 100. Kjartan Atli Kjartansson afrekaði það að spila aðeins fjórða leikhluta leiksins, fá 4 villur og skora 10 stig en hann sýndi það sem vantaði í alltof stóran hluta Sjtörnunnar í kvöld, baráttu. Þegar ein mínúta var eftir af leiknum fengu minni spámenn að spreyta sig og fögnuður KR-inga farinn að óma um stræti og götur. KR hafði á endanum 14 stiga sigur, 95-109 og fögnuðu vel að lokum enda vel að sigrinum komnir
 
Til hamingju KR, til hamingju KR-ingar. KR er óneitanlega besta liðið á Íslandi í dag.

Heildarskor:

Stjarnan: Jovan Zdravevski 20, Renato Lindmets 20/13 fráköst, Marvin Valdimarsson 14/4 fráköst, Justin Shouse 12/6 stoðsendingar, Kjartan Atli Kjartansson 10/4 fráköst, Fannar Freyr Helgason 9/4 fráköst, Guðjón Lárusson 5, Daníel G. Guðmundsson 3, Dagur Kár Jónsson 2, Ólafur Aron Ingvason 0, Magnús Guðmundsson 0, Christopher Sófus Cannon 0.

KR:
Marcus  Walker 40/6 fráköst/6 stoðsendingar/8 stolnir, Finnur Atli Magnússon 20, Brynjar Þór Björnsson 12, Pavel Ermolinskij 11/13 fráköst/9 stoðsendingar, Hreggviður Magnússon 9/7 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 7, Jón Orri Kristjánsson 4/6 fráköst, Ólafur Már Ægisson 4, Fannar Ólafsson 2, Páll Fannar Helgason 0, Matthías Orri Sigurðarson 0, Ágúst  Angantýsson 0.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Sigmundur Már Herbertsson
 

Myndir/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
 
Umfjöllun/ Gísli Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -