Fáum kom það svo sem á óvart að Derrick Rose skyldi hafa verið valinn besti leikmaður tímabilsins í NBA deildinni. Þá var það heldur engin sjokk-meðferð að Blake Griffin skyldi hafa verið valinn besti nýliði deildarinnar.
Derrick Rose er yngsti leikmaðurinn sem valinn er besti leikmaður deildarinnar (MVP). Þá fór hann ekki í ómerkilegan hóp þar sem Rose og Michael nokkur Jordan eru einu leikmenn Chicago Bulls til þess að hljóta þessa útnefningu. Rose stýrði Bulls til 62 deildarsigra á leiktíðinni og hlaut alls 1182 stig í kjörinu á leikmanni ársins. Þá ýtti hann Wes Unseld úr sæti yngsta leikmannsins til þess að verða valinn besti leikmaðurinn.
Dwight Howard hafnaði í 2. sæti í kjörinu, LeBron James í þriðja, Kobe Bryant í fjórða og Kevin Durant í fimmta. Ekki slæmt að skjóta þessum nöfnum ref fyrir rass og það gerði Rose aðeins á sínu þriðja ári í deildinni.
Rose var með 25 stig að meðaltali í leik og 7,7 stoðsendingar og stendur nú í ströngu með Bulls sem eru 0-1 undir gegn Atlanta Hawks á austurströndinni
Blake Griffin lét svo ekki lítið fyrir sér fara með LA Clippers á tímabilinu. Clippers byrjuðu illa en unnu vel á með Griffin í broddi fylkingar. Þetta mun vera í fyrsta sinn síðan leiktímabilið 1989-1990 sem nýliði ársins fær rússneska kosningu en það tímabil var það David Robinson hinn margfrægi miðherji San Antonio Spurs sem varð einróma fyrir valinu.
John Wall bakvörður hjá Washington Wizards varð í 2. sæti í valinu og DeMarcus Cousins varð þriðji. Griffin var með 22,5 stig og 12,1 frákast að meðaltali í leik og var alls með 63 tvennur og hafnaði í 3. sæti í deildinni í þeirri keppni.