spot_img
HomeFréttirEf ekkert verður gert þá höldum við áfram! Fyrstu körfuboltatengdu mótmæli Íslandssögunnar?

Ef ekkert verður gert þá höldum við áfram! Fyrstu körfuboltatengdu mótmæli Íslandssögunnar?

 
Mótmæli fóru fram í gær við göturnar Garðhús og Veghús í Grafarvogi þar sem Reykjavíkurborg hefur látið taka niður ástsæla körfu og það létu ungmenni í Grafarvogi ekki bjóða sér. Fram kemur í máli Ægis Þórs Steinarssonar hjá Morgunblaðinu í gær að nóg hafi verið fyrir einn íbúa að kvarta undan hávaða og þá hafi karfan verið numin á brott.
 
 
Karfan.is tók hús á Ægi Þór sem nýverið var kjörinn besti ungi leikmaður úrvalsdeildar karla á lokahófi KKÍ sem og prúðasti leikmaðurinn. Ægir er á meðal bestu leikmanna þjóðarinnar og lætur sitt ekki eftir liggja í Grafarvoginum, sér í lagi ekki þegar söguríkar körfur eiga hlut að máli. Ægir varð tvítugur í gær og hélt því upp á þann merka áfanga með látum.
 
Hafið þið mótmælendur trú á því að borgin setji körfuna upp á nýjan leik?
Já við höfum fulla trú á því og ef það verður ekki gert þá munum halda áfram með þennan "alþjóðlega dribbldag" og fá ennþá meira fólk til þess að taka þátt í þessu því aðstæðurnar eru ekki bara slæmar hjá okkur heldur líka í öðrum hverfum!
 
Hvaða tímaramma gefið þið borgaryfirvöldum til þess að ,,skila" ykkur körfunni?
Við viljum fá hana núna, strax í dag! Miðað hvað þeir voru fljótir að taka hana þá ættu þeir að vera jafn snöggir að koma með hana tilbaka. Ég er viss um að karfan komi aftur, við erum búin að fá það svar frá Reykjavíkurborg, en ef hún verður ekki komin í dag, þá höldum við þennan dag aftur á morgun.
 
Karfan.is setti sig einnig í samband við Hannes Sigurbjörn Jónsson, formann KKÍ, vegna málsins og sagðist Hannes ekki hafa vitneskju um að áður hafi farið fram körfuboltatengd mótmæli og líkast til hafi aðgerðirnar í gær verði þær fyrstu sinnar tegundar í íslenskri körfuknattleikssögu. ,,Annars vil ég endilega koma því á framfæri að ég er afar ánægður með þetta framtak ungmennanna í Grafarvogi og Körfuknattleikssamband Íslands sýnir hópnum fullan stuðning og áhuga í þeirra baráttu.“
 
Myndir/ Karl West Karlsson: Ægir Þór ásamt nokkrum ungum mótmælendum í Grafarvogi í gær.
 
Fréttir
- Auglýsing -