Ágúst Björgvinsson heldur áfram að safna liði á Hlíðarenda en hann tók á dögunum við kvennaliði Vals í körfuknattleik sem leikur í efstu deild á næstu leiktíð. Telma Björk Fjalarsdóttir hefur nú skrifað undir samning við Val og er fjórði leikmaðurinn sem gengur til liðs við félagið á skömmum tíma. Morgunblaðið greindi frá þessu á mánudag.
Þrjár þeirra eru mjög leikreyndar, Telma, Kristrún Sigurjónsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir. Sú fjórða er Guðbjörg Sverrisdóttir sem á framtíðina fyrir sér í boltanum. Ágúst hefur einnig verið farsæll í því að fá til sín snjalla erlenda leikmenn og nýliðar Vals eru því til alls líklegir á næstu leiktíð.
Telma er framherji og styrkir Val í baráttunni um fráköstin. Telma lék lítið í vetur með Haukum vegna anna og ökklameiðsla en var fyrirliði Hauka þegar liðið varð bikarmeistari í fyrra.
Morgunblaðið/ www.mbl.is