spot_img
HomeFréttirHrafn Kristjánsson: Þetta eru hörkustelpur

Hrafn Kristjánsson: Þetta eru hörkustelpur

 
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, fékk góðan liðsstyrk í gær þegar Bryndís Guðmundsdóttir skrifaði undir 2 ára samning hjá KR ásamt Margréti Köru Sturludóttir og Hafrúnu Hálfdánardóttur.
Hvernig líst Hrafni á nýjasta KR-inginn?
“Líst rosalega vel á þetta. Þetta gefur okkur aukið bit undir körfunni sem kemur að góðum notum. Þetta er svona okkar fyrsta skref, en við höfum nú ekki verið að flýta okkur neitt rosalega mikið. Það hafa verið ákveðnar væringar í gangi núna seinustu vikurnar. Þetta er búið að vera ferli sem er búið að ganga rólega og rétt finnst mér. Bryndís er komin hingað og rosalega ákveðin í því að halda áfram að bæta sig sem leikmaður og að leggja sitt að mörkum hérna”.
 
Eins og áður sagði skrifuðu Margrét Kara, besti leikmaður Iceland Express deildar kvenna og Hafrún Hálfdánardóttir líka undir 2 ára samning.
 
“Líka gott að staðfesta það enn og aftur að Margrét Kara er okkar vesturbæinga og vill vera leiðtogi okkar KR-inga og halda áfram að leggja sína vinnu í að vinna titla hérna í vesturbænarum. Kara má alveg eiga það að hún gerði það alveg ljóst frá byrjun hvar hennar hugur lægi. Hún var svo heil í því og ákveðin að við kannski vorum ekki nógu fljótir að bregðast við. Þetta var allt voða mikið í rólegheitunum og kannski þess vegna hafa einhverjar kjaftasögur farið af stað, án þess að ég viti hversu miklar þær voru. Margrét og Hafrún voru þeir leikmenn sem var tiltölulega ljóst að yrðu hérna áfram. Það er mjög gott að fá Hafrúnu hérna aftur. Hún átti í erfiðum meiðslum í fyrra en það vita nú flestir hvað í henni býr þegar hún er heil og við ætlum að vinna vel í hennar málum þannig að hún komi inn gríðarsterk, eins og hún á að sér að vera á næsta tímabili”.
 
Þetta eru ungar stelpur sem verða máttarstólpar í liði KR á næsta tímabili. Hefur Hrafn einhverjar áhyggjur af ákveðnu reynsluleysi í liðinu?
 
“Nei nei, þetta eru hörkustelpur. Við erum svosem ekkert hætt, við erum bara að móta okkar hóp. Það er mjög mikilvægt að þær KR stelpur sem voru fái sitt rými og sín hlutverk. Við ætlum okkur að vera með lið sem gerir atlögu að öllum titlum, sama á hvaða hraða eða á hvaða hátt við gerum það. Fólk má ekki gleyma því að við vorum kanalausar fram að áramótum í fyrra en fórum samt í báða úrslitaleiki sem í boðu voru í höllinni í fyrra og féllum út fyrir Íslandsmeisturunum á endanum í ansi skrautlegri úrslitakeppni. Við ætlum að reyna að haga okkar málum þannig að þessar stelpur fái nægilegt rými til þess að bæta sig”.

 
Mun Signý Hermannsdóttir spila með KR á næstu leiktíð?
 
“Ég geri svona síður ráð fyrir því. Við svosem eigum eftir að ræða það niður í kjölin en það kæmi mér á óvart ef hún yrði áfram hjá okkur. Það er náttúrulega missir í því. Hún er búin að vera miðherjinn í deildinni í svolítið langan tíma en það er hægt að vinna í þannig skarði með leikskipulagi eða hreinlega með því að líta í kringum sig. Það eru stelpur hjá okkur eins og Obba , Svandís og Helga Einarsdóttir sem eru roknar leikmenn líka svo við erum ekkert á flæðisskeri staddir”.
 
Má segja að Bryndís sé hingað komin til þess að leysa Signýu af hólmi?
 
“Hún stígur inní ákveðið hlutverk. Við erum ekkert farin að hugsa um hver leysir hverja af hólmi. Hún stígur inní ákveðið hlutverk, hún er góður skorari. Það er þægilegt að geta losað boltan undir körfuna og á einhverja sem veit hvar karfan er. Sérstaklega þegar það er verið að pressa á mann og spilið er ekki nógu liðugt. Hún stígur í ákveðið hlutverk en hún er feikilega ákveðin í að bæta sig. Þetta eru ungar stelpur og það er aldrei að vita hvar þær geta endað. Það er verið að spila körfubolta annarstaðar en á íslandi. Það verður gaman að fá að vinna með þeim í þessu”.
 
 
Gísli Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -