spot_img
HomeFréttirHrafn til Houston í júlí á Eurobasket Summer League

Hrafn til Houston í júlí á Eurobasket Summer League

 
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR í körfunni, hefur verið valinn til starfa við Sumardeild Eurobasket.com í Houston 21.-24. júlí. Mun hann vera einn átta þjálfara sem þjálfa lið á mótinu. Liðin eru skipuð jafnt leikmönnum nýútskrifuðum úr háskóla og atvinnumönnum úr Evrópu sem vilja koma sér enn frekar á framfæri áður en keppni hefst í Evrópu næsta vetur. Karfan.is setti sig í samband við Hrafn varðandi málið.
Hvernig kom það til að þér var boðið á þetta mót alla leið frá litlu eynni úr norðri?
Ætli það sé ekki blanda af þessum stöðugu samskiptum sem maður á við hina og þessa árlega í leit að leikmönnum í hverju skúmaskoti Bandaríkjanna og svo árangri KR liðsins í vetur. David Walls sem sér um undirbúning búðanna hefur alla tíð fylgst vel með íslensku deildinni í starfi sínu hjá Eurobasket.com og við alltaf verið í góðu sambandi. Í ofanálag voru 2-3 aðilar sem ég hef unnið með í gegnum tíðina á leið til Houston að kynna sína leikmenn og hafa sjálfsagt einnig átt hlut að máli Stuttu eftir að tímbili lauk hafði David samband og bauð mér að taka þátt í þessu verkefni. Mér fannst sem ég gæti haft nokkurn hag af þessu auk þess sem þetta er vitaskuld ævintýri sem væri synd að neita sér um.
 
Hvernig er þetta mót uppsett og hvers lags leikmenn verða á svæðinu?
Það verður sjálfsagt misjafn sauðurinn en ég hef fengið upplýsingar þess efnis að leikmannavalið þarna verði sterkt. Fyrirfram er stefna deildarinnar að taka inn svokallaða „All Americans“ úr neðri deildum háskólaboltans, „All Conference“ leikmenn úr fyrstu deildinni og svo atvinnumenn utan Bandaríkjanna. Auðvitað er svo allur gangur á því hvernig gengur að fylla deildina notandi þessar inngöngukröfur þannig að sjálfsagt verða nú leikmenn þarna héðan og þaðan að auki. Ég veit að það verða einhverjir leikmenn í mínu liði sem eru valdir þar í samræmi við það sem ég er að leita að fyrir næsta tímabil, vonandi skilar það einhverju skemmtilegu. Mótið sjálft er með hefðbundnu sniði. Ég er ekki að fá margar æfingar með hópnum þannig að þetta snýst nú ekki um mikið meira en að skipta inn á og leyfa öllum að fá tækifæri til að láta ljós sitt skína.
 
Eru einhver önnur verkefni á döfinni í sumar?
Næsta verkefni verður vitaskuld æfingabúðir og þjálfaranámskeið KFÍ sem hefst 5. júní. Þar er ekkert sparað til og má búast við hörkubúðum. Manni líður alltaf eins og heima hjá sér fyrir vestan þannig að tilhlökkunin er mikil. Það skemmir ekki fyrir að þar mæta manni snillingar eins og Tony Garbelotto, Geoff Kotila, Nebojsa Vidic og fleiri. Tony er sjálfsagt sá maður sem hefur kennt manni mest hvað varðar þjálfunina og hefur nú nýlokið tvöföldu titlatímabili í Englandi með nánast einungis enskum leikmönnum, eitthvað sem ekki hefur verið gert áður þar. Hann hefur auk þess unnið mikið sem aðstoðarþjálfari enska landsliðsins og mætir sjálfsagt galvaskur til leiks með þeim Luol Deng og Ben Gordon í London 2012. Kotila þekkja náttúrulega allir hér á landi af góðu einu. Margt af því sem hann kom með inn í íslenska boltann var ansi ferskt og skemmtilegt og maður lá oft yfir leikjum Snæfells til að bæta við sig hinu og þessu. Ég komst því miður ekki á námskeið hans í Höllinni um árið en miðað við umsagnir þjálfara þaðan er eins gott að leggja vel við hlustir fyrir vestan. Nebojsa var að mínu mati griðarsterkur fyrirlesari á síðustu búðum og verður gaman að sjá á hverju hann lumar í þetta skiptið. Aðstoðarþjálfarar A-landsliðsins Pétur Már og Helgi Jónas láta svo ljós sitt skína en þar eru menntaðir, metnaðarfullir menn á ferð. Ætli sumarplanið í grófum dráttum sé ekki bara að klára leikmannamál að mestu fyrir mánaðamót, skella sér vestur, taka gott frí og fara svo að spá í Houston!
 
Myndir af staðnum:
James White, sem verður á staðnum í Houston, í góðum gír:
Fréttir
- Auglýsing -