U18 ára landslið karla vann í kvöld sinn fyrsta leik á Norðurlandamótinu í Svíþjóð er Danir voru lagðir að velli í Solnahallen. Íslenska liðinu óx ásmegin með hverri mínútunni í leiknum og var framlagið veglegt frá fyrsta manni til þess síðasta, lokatölur 80-65. Martin Hermannsson var að öðrum ólöstuðum besti maður leiksins með 22 stig og þar af 16 í fyrri hálfleik. Þá var Matthías Orri Sigurðarson með 19 stig og Valur Orri Valsson gerði 12.
Íslenska liðið hóf leikinn á maður á mann vörn og það kunnu Danir að meta sem komust í 2-8 áður en Einar Árni Jóhannsson tók leikhlé. Út úr leikhléinu mætti Ísland með svæðisvörn til leiks og þá komust skriður á málin.
Martin Hermannsson tók af skarið í íslenska liðinu og minnkaði muninn í 9-10 þar sem hann gerði sjö stig í röð. Valur Orri Valsson kom svo frískur af bekknum og kom Íslandi yfir 11-10 með sterku gegnumbroti sem einkenndist af skemmtilegu virðingarleysi gagnvart risavöxnum teig Dana.
Ísland leiddi svo 16-13 að loknum fyrsta leikhluta og rönkuðu vel við sér eftir dræma byrjun á leiknum.
Varnarleikurinn var allsráðandi í öðrum leikhluta, Jens Valgeir Óskarsson kom með flotta baráttu inn í leikhlutann en Danir voru ívið beittari. Kevin Larsen, einn af turnum danska liðsins, var á loksprettinum fyrir hálfleik búinn að troða þrisvar sinnum með látum yfir íslenska liðið og þá var Martin Hermannssyni ekki til setunnar boðið. Martin þaggaði niður í Larsen með þriggja stiga körfu og Ísland leiddi 29-27 í hálfleik.
Martin Hermannsson var aðal æsingamaður Íslands í fyrri hálfleik með 16 stig og Valur Orri Valsson með 4.
Íslendingar héldu sig við svæðisvörnina í síðari hálfleik og voru beittir fyrstu tvær mínúturnar þar sem Martin Hermannsson skellti niður tveimur þristum og Kristófer Acox tróð eftir hraðaupphlaup og staðan orðin 37-29 Íslandi í vil. Danir tóku hér kipp og náðu að jafna leikinn í 37-37 með þriggja stiga körfu en Adam var ekki lengi í Paradís því strax í næstu sókn smellti Valur Orri Valsson niður þrist fyrir Ísland og staðan 40-37.
Valur Orri lék fantavel það sem eftir lifði fjórða leikhluta og vélbyssan á stráknum var farin að hitna eftir rólegan fyrri hálfleik. Matthías Orri Sigurðarson lét einnig til sín taka á lokasprettinum og skellti þrist sem kom Íslandi í 50-44 og Ísland leiddi svo 54-46 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Í fjórða leikhluta var verulega dregið af Dönum og kom skýrt í ljós að íslenski hópurinn er í mun betra formi en Danir enda léku okkar menn við hvurn sinn fingur. Matthías Orri breytti stöðunni í 65-53 með þriggja stiga körfu og skömmu síðar breytti Kristófer Acox stöðunni í 70-56 með troðslu eftir hraðaupphlaup.
Eftirleikurinn var auðveldur, Ísland sigldi í átt að öruggum sigri, beittu svæðisvörninni á Dani sem svöruðu henni aldrei almennilega. Stöku sinnum tókst Dönum að koma íslenska teignum í vandræði en það varði stutt. Lokatölur 80-65 Íslandi í vil.
U18 ára liðið mætir svo Svíum á morgun kl. 16.30 að íslenskum tíma.
Stigaskor:
Martin Hermannsson: 22
Matthías Orri Sigurðarson: 19
Valur Orri Valsson: 12
Kristófer Acox: 10 og 7 fráköst
Emil Karel Einarsson: 6
Þorsteinn Ragnarsson: 4
Stefán Karel Torfason: 4
Snorri Hrafnkelsson: 2
Oddur Pétursson: 1