Ísland var rétt í þessu að bíða nauman ósigur gegn Svíþjóð í U18 ára karlaflokki á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Um spennuleik var að ræða þar sem þriggja stiga skot Íslands til að kreista fram framlengingu geigaði. Lokatölur í Solna 77-74 Svíum í vil. Þeir Valur Orri Valsson og Martin Hermannsson voru stigahæstir í íslenska liðinu í dag, báðir með 19 stig.
Heimamenn í Svíþjóð byrjuðu betur, komust í 1-8 þegar Einar Árni Jóhannsson tók leikhlé fyrir íslenska liðið. Rétt eins og í gær byrjaði Ísland í maður á mann vörn en komu út úr leikhléinu vopnaðir svæði.
Ísland tók 8-0 áhlaup eftir leikhléið og komust í 9-8. Matthías Orri Sigurðarson og Kristófer Acox voru líflegir á þessum kafla og ekki leið á löngu uns Kristófer tróð að hætti hússins í hraðaupphlaupi og Valur Orri fylgdi með þriggja stiga körfu og staðan 19-11 Ísland í vil. Svíar klóruðu í bakkann með Nicholas Spires, leikmann Barcelona, í broddi fylkingar og náðu að minnka muninn í 23-22 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta.
Spires þessi er ekki eini leikmaður U18 ára landsliðs Svía sem leikur á Spáni. Annar að nafni Marcus Eriksson leikur með Manresa.
Einhver skjálfti var í báðum liðum sem skoruðu ekki fyrstu tvær og hálfa mínútuna í öðrum leikhluta. Stíflan brast þó um síðir og það með látum, þrír íslenskir þristar í röð, Martin byrjaði, Valur Orri fylgdi þar á eftir og Matthías Orri setti þann þriðja og Ísland komið í 34-25 þegar um 5 mínútur voru til hálfleiks.
Svíar svöruðu þessari þristadembu hjá Íslandi með því að minnka muninn í 39-36 en nær komust þeir ekki og Martin Hermannsson splæsti í flautuþrist eftir glæsilega stoðsendingu frá Val Orra og Ísland leiddi því 44-38 í hálfleik.
Þeir Martin og Valur Orri voru báðir með 11 stig í hálfleik og Matthías Orri 9. Fínn fyrri hálfleikur hjá íslenska liðinu sem í tvígang virtist vera að stinga af en í bæði skiptin klóruðu Svíar sig nærri. Þá fékk Ísland bara dæmdar á sig fjórar villur í fyrri hálfleik og menn máttu því vel við að herða róðurinn í vörninni.
Þeir sænsku opnuðu síðari hálfleik 8-0 og komust yfir 44-46. Martin Hermannsson tókst þó að koma Íslandi á blað með stökkskoti í teignum og jafna í 46-46 en þessi fyrstu stig Íslands í síðari hálfleik komu eftir fjögurra mínútna leik!
Svíar sigu frá aftur og komust í 48-51 og þá tóku okkar menn leikhlé. Nokkur deyfð var bara í íslenska hópnum í þriðja leikhluta og sænska vörnin gerði fína hluti uns Snorri Hrafnkelsson lét finna sig í tvígang í teignum og Valur Orri mætti svo með þrist og minnkaði muninn í 59-60 og þannig stóðu leikar eftir þriðja leikhluta.
Jafnt var á öllum tölum í fjórða leikhluta, 66-66 þegar fimm mínútur voru eftir og liðin héldu áfram að skiptast á því að skora. Valur Orri Valsson kom Íslandi í 71-67 með þriggja stiga körfu þegar þrjár mínútur voru til leiksloka en þá tóku heimamenn á sig rögg og komust yfir 74-75 með villu og körfu að auki. Þegar 13 sekúndur voru eftir skoruðu Svíar á ný og leiddu 74-77. Ísland þurfti þriggja stiga körfu til að ná fram framlengingu en þriggja stiga skot Vals Orra geigaði og Svíar fögnuðu sigri í spennandi leik.
Valur Orri Valsson og Martin Hermannsson gerðu báðir 19 stig í íslenska liðinu í dag. Matthías Orri bætti við 13 stigum og Stefán Karel Torfason gerði 10 stig og tók 11 fráköst. Þá var Kristófer Acox með 7 stig og 7 fráköst. Fínn leikur hjá íslenska liðinu sem hafði nokkur góð tækifæri til þess að gera leikinn að sínum og klára dæmið en það hafðist ekki í dag.
Næsti leikur U18 ára landsliðs Íslands er á morgun gegn Norðmönnum kl. 09:00 í fyrramálið.