Íslenska U18 ára landslið kvenna tapaði áðan sínum þriðja leik í röð á Norðurlandamótinu í Svíþjóð en að þessu sinni lenti liðið í hörkuleik gegn Norðmönnum. Lokatölur voru 60-64 Noregi í vil eftir æsispennandi lokasekúndur. Margrét Rósa Hálfdánardóttir fór fyrir íslenska liðinu með 16 stig og stalla hennar úr Haukum, Dagbjört Samúelsdóttir, bætti við 12 stigum. U18 stelpurnar mæta svo Dönum síðar í dag. Ísland þarf að vinna Dani með fimm stiga mun til þess að mæta þeim í leik um bronsið á sunnudag, 4 stiga sigur eða minna, jafnvel tap þýðir að Danir og Norðmenn leika um bronsið.
Berglind Gunnarsdóttir setti tóninn fyrir íslenska liðið og skoraði fyrstu stig leiksins eftir gegnumbrot. Dagbjört Samúelsdóttir kom skömmu síðar með þriggja stiga körfu og staðan 8-3 en Norðmenn létu ekki stinga sig af og minnkuðu muninn í 13-10.
Á þessum upphafsmínútum leiksins var ljóst að bæði Svíar og Finnar eru með lið í algerum sérflokki í U18 ára kvenna og að hlutskipti Íslands, Noregs og Danmerkur yrði að berjast um bronsið á þessu móti.
Þær Berglind Gunnarsdóttir og Dagbjört Samúelsdóttir fengu svo kælingu í fyrsta leikhluta er þær héldu á bekkinn báðar með þrjár villur en Ísland leiddi eftir fyrstu tíu mínúturnar 22-18.
Norðmenn opnuðu annan leikhluta 1-7 og komust yfir 23-25 en þá tók Jón Halldór leikhlé fyrir íslenska liðið. Árnína Lena Rúnarsdóttir kom Íslandi aftur á sporið með þrist og minnkaði muninn í 26-28 þegar um sex mínútur voru til hálfleiks.
Íslenska liðið var ekki nægilega duglegt að sækja á körfu Norðmanna í öðrum leikhluta og sættu sig við of mörg og of léleg þriggja stiga skot en stíflan brast að lokum þegar Margrét Rósa Hálfdánardóttir gerði 5 stig í röð fyrir Ísland sem komst yfir 31-30 en leikar voru svo jafnir 32-32 í hálfleik.
Margrét Rósa var með 11 stig í hálfleik hjá íslenska liðinu og Árný Sif Kristínardóttir var með 5 stig og 3 fráköst.
Árný Sif Kristínardóttir kom Íslandi í 37-34 með þriggja stiga körfu snemma í síðari hálfleik. Skömmu síðar var Berglind Gunnarsdóttir á ferðinni fyrir utan og jók muninn í 43-36 og þær íslensku voru líflegar og baráttuglaðar á upphafsmínútunum, pressuðu vel og uppskáru nokkra auðvelda bolta.
Ísland hresstist við að nýju á lokasprettinum þegar Dagbjört Samúelsdóttir kom inn á parketið að nýju en Dagbjört var þá komin með fjórar villur og hafði hvílt nánast allan þriðja leikhluta. Dagbjörtu var ekki til setunnar boðið og skoraði fimm stig í röð fyrir Ísland sem leiddi 50-48 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Norðmenn settust í bílstjórasætið í fjórða leikhluta og komust fjórum stigum yfir á fyrstu fimm mínútunum án þess að íslenska liðið næði að læða inn körfu, staðan 50-54 Noregi í vil og fimm mínútur til leiksloka.
Ína María Einarsdóttir hrökk í gang á þessum kafla en framan af leik vildu þristarnir ekki niður hjá þessum örvhenta og áræðna leikmanni en núna duttu þeir, tveir með skömmu millibili og Ína minnkaði muninn fyrir Ísland í 58-60 þegar tvær mínútur voru til leiksloka.
Dagbjört Samúelsdóttir minnkaði muninn svo í 60-62 þegar rúm mínúta var eftir. Norðmenn skoruðu ekki í næstu sókn en Íslendingar fóru yfir og brenndu af tveimur þristum og náðu ekki að brjóta á Norðmönnum fyrr en sex sekúndur voru til leiksloka og þá var liðið aðeins með fjórar liðsvillur. Ágætir dómarar og tímaverðir leiksins voru ekki með á nótunum að þessu sinni og þegar Ísland braut í fimmta sinn til að setja Norðmenn á línuna liðu næstum tvær sekúndur af leiktímanum en brotið tók ekki nema sekúndubrot. Þetta kom þó ekki að sök að endingu þar sem Norðmenn settu niður bæði vítin og fóru með 60-64 sigur af hólmi.
Þriðja tap U18 ára kvennaliðsins því staðreynd en allt annað sjá til stelpnanna að þessu sinni, vörnin mun betri og sjálfstraustið allt á uppleið og ekki seinna vænna þar sem liðið mætir Dönum í dag kl. 15:00.
Margrét Rósa Hálfdánardóttir gerði 16 stig fyrir Ísland í dag og tók 4 fráköst. Dagbjört Samúelsdóttir bætti við 12 stigum og Árný Sif Kristínardóttir gerði 8. Þá var Berglind Gunnarsdóttir með 7 stig og 5 fráköst.