spot_img
HomeFréttirFinnar feti framar: 16 ára stelpurnar geta borið höfuð hátt

Finnar feti framar: 16 ára stelpurnar geta borið höfuð hátt

 
16 ára landslið kvenna hefur lokið keppni á Norðurlandamótinu í Svíþjóð en liðið var rétt í þessu að tapa gegn Finnum og því fann Ísland ekki sigur þetta árið í 16 ára keppni kvenna. Liðið tapaði öllum fjórum leikjum sínum á mótinu, með naumindum þó, en fékk marga hörkuleiki sem hefðu vafalítið með smá hörku og heppni getað fallið okkar megin. Lokatölur voru 70-84 Finnum í vil. Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 12 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar.
Finnar byrjuðu vel gegn íslensku svæðisvörninni og komust í 0-6 og grunnatriði eins og að stíga út voru ekki fyrir hendi hjá íslenska liðinu. Andrea Björt Ólafsdóttir gerði fyrstu stig Íslands af vítalínunni en Finnar komust í 4-13 áður en Ísland vaknaði af værum blundi.
 
Vörnin fór loks að sýna klærnar um miðbik fyrsta leikhluta og fyrir vikið kom meira öryggi í sóknaraðgerðir liðsins. Slíkt var öryggið að Ingunn Embla Kristínardóttir bauð upp á þrist sem fór í spjaldið og ofan í og staðan 17-20 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Einhver þreyta var farin að segja til sín í íslenska liðinu í öðrum leikhluta enda rúllað á fáum leikmönnum, svæðið lak og Finnar leystu vel úr því og á sama tíma var miðherjinn Sandra Lind Þrastardóttir komin með þrjár villur.
 
Aðeins lifnaði yfir þeim íslensku undir lok fyrri hálfleik og stelpurnar náðu að minnka muninn í 31-39 en Finnar leiddu 31-42 í hálfleik þar sem Sara Rún Hinriksdóttir var komin með 7 stig og 2 stoðsendingar og Ingunn Embla Kristínardóttir hafði gert 6 stig.
 
Finnar opnuðu síðari hálfleik 7-0 og náðu þar með 18 stiga forystu. Íslenska liðið átti nokkrar rispur en þær voru of litlar og vörðu of stutt. Katrín Fríða Jóhannsdóttir minnkaði muninn í 40-56 með langþráðri þriggja stiga körfu fyrir Ísland en Finnar leiddu 40-60 að loknum þriðja leikhluta.
 
Strax í upphafi fjórða sýndu Finnar að þeir ætluðu ekki að hleypa Íslendingum nærri. Finnar brugðu hvergi út af sínu skipulagi og gerðu Íslandi áfram lífið leitt í teignum og svo fór að lokatölur voru 70-84 Finnum í vil.
 
Sara Rún Hinriksdóttir, sem leikur á yngra árinu með U16 liðinu, var stigahæst í leiknum með 12 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar en Sara hefur vakið verðskuldaða athygli hér ytra enda fljótur og áræðinn leikmaður hér á ferðinni. Aðrar sem hafa staðið sig vel eru Andrea Björt Ólafsdóttir og Aníta Kristmundsdóttir Carter og Blikinn Hallveig Jónsdóttir. Heilt á litið var liðið að spila vel og lenda í hörkuleikjum eins og fyrr greinir en herslumuninn vantaði og ekki ósennilegt að 16 ára lið kvenna mæti með blóðbragð í munni hér á næsta ári. Elsa Karlsdóttir er svo leikmaður sem vert er að fylgjast með en hér er á ferðinni ungur miðherji frá Val og verður fróðlegt að sjá hvernig hennar leik mun vinda fram.
 
 
Árangur U16 kvenna á Norðurlandamótinu:
 
Ísland 80 – 86 Noregur (framlengt)
Ísland 52 – 66 Danmörk
Ísland 38 – 53 Svíþjóð
Ísland 70 – 84 Finnland
 
Íslenska liðið lauk því þátttöku án sigurs á mótinu en allir þeirra leikir voru hörkuleikir og ekki síst sá fyrsti þar sem framlengingu þurfti til að skera úr um úrslitin.
 
Fréttir
- Auglýsing -