Eins og fram kom á dögunum var Helenu Sverrisdóttur gert að hvíla sig frá æfingum eftir að upp komst að hún væri með rifið milta sem hlaust í kjölfar einkirningssóttar. Helena hefur nú verið alveg frá æfingum í nokkrar vikur og segir að þetta sé allt á réttri leið.
„Ég fékk semsagt leyfi frá lækni á síðasta miðvikudag til að byrja að skokka og svo bara bæta meira og meira við eftir því sem líkaminn leyfir og fer síðan í segulómskoðun í byrjun júlí. Við fáum þá betri svör um hvort þetta líti allt saman ekki betur út,“ sagði Helena greinilega mjög sátt með að vera komin aftur af stað.
„Ég er því að búin að ná nokkrum dögum þar sem ég hef fengið hjartsláttinn aðeins upp og mér líður bara vel, engir verkir sem er jákvætt. Ég tek bara góðan tíma og vinn mig upp hægt og stígandi en tek ekki contact strax.“
Samkvæmt heimildum karfan.is þá hafa forsvarsmenn Good Angels Kosice sýnt mikinn skilning á þessum meiðslum Helenu og eins og staðan er núna þá verður ekkert óbreytt við för Helenu til Slóvakíu.
„Ég fer til Slóvakíu á upphaflega plönuðum tíma eða í kringum 15.ágúst en ég veit ekki nákvæmlega hvenær ég verð komin í mína venjulegu þjálfun, vonandi fyrstu vikurnar í júlí,“ sagði Helena að lokum.
Sjá einnig: