Íslenska karlalandsliðið mun í næstu viku fara til Tyrklands til þess að taka þátt í forkeppni fyrir Ólympíuleikana sem haldnir verða í París á næsta ári. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem Ísland nær að vinna sér inn sæti í þessari forkeppni. Vegur þungt þar hversu vel liðinu gekk í undankeppni heimsmeistaramótsins, en þrátt fyrir að liðið hafi verið einu stigi gegn Georgíu frá því að tryggja sig á lokamótið vann það nokkrar sterkar þjóðir í undankeppninni.
Í þessari forkeppni er 16 liðum skipt upp í tvö mót, þar sem annað verður leikinn í Póllandi og hitt í Tyrklandi. Einn farseðill er í boði í undankeppni Ólympíuleikanna í hvoru móti. Á móti 1 sem fram fer í Póllandi taka þátt ásamt heimamönnum lið Tékklands, Makedóníu, Ísrael, Eistlands, Portúgal, Ungverjalands og Bosníu.
Í móti 2 sem Ísland fer á í Tyrklandi taka þátt ásamt heimamönnum og Íslandi lið Úkraínu, Búlgaríu, Hollands, Króatíu, Belgíu og Svíþjóð. Innan mótsins er Ísland svo í riðli með Tyrklandi, Úkraínu og Búlgaríu, en til þess að komast í útsláttarkeppnina þarf Ísland að vera eitt tveggja efstu liða riðilsins eftir fyrstu leikina.
Riðlarnir í Tyrklandi (sæti á Evrópulista FIBA í sviga)
C riðill:
Tyrkland (11)
Úkraína (15)
Búlgaría (24)
Ísland (26)
D riðill:
Holland (23)
Króatía (14)
Belgía (17)
Svíþjóð (27)
Leikir Íslands í riðlakeppni mótsins:
12. ágúst gegn Tyrklandi
13. ágúst gegn Úkraínu
15. ágúst gegn Búlgaríu
Eftir riðlakeppnina eru svo leikin undanúrslit þann 18. ágúst þar sem tvö efstu lið hvors riðils mæta liðum hins riðilsins og svo er úrslitaleikur um sæti í undankeppninni þann 20. ágúst. Nái Ísland að vinna sitt mót mun liðið fara í undankeppnina þar sem liðið mun mæta öðrum evrópskum þjóðum sem unnu sér inn sæti í henni með þátttöku í heimsmeistarakeppni eða góðum árangri á síðasta Eurobasket.
Það er því ljóst að leiðin er nokkuð löng og strembin fyrir Ísland að vinna sér inn sæti á Ólympíuleikunum á næsta ári. Í heild fá aðeins 12 þjóðir heimsins að taka þátt þar af þeim 213 sem skráðar eru hjá FIBA með landslið, en á síðustu leikum sem fram fóru 2020 í Tókýó tóku þátt Argentína, Ástralía, Tékkland, Frakkland, Þýskaland, Íran, Ítalía, Japan, Nígería, Slóvenía, Spánn og Bandaríkin.
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil