Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er hættur hjá hinu sterka liði Marylands-háskólans og ætlar að freista gæfunnar í atvinnumennskunni í Evrópu. Mbl.is greinir frá þessu í dag og hefur tíðindin eftir The Baltimore Sun.
Á heimasíðu Morgunblaðsins segir ennfremur:
Haukar var nýliði í háskólaboltanum í vetur og frami hans var hraður. Hann kom talsvert við sögu hjá liðinu í vetur og var kominn í byrjunarliðið undir lok tímabilsins þegar Maryland féll úr keppni á móti stórliði Duke.
Fjallað er um málið á vefsíðu The Baltimore Sun og þar segir þjálfari Maryland, Mark Turgeon, að eftirsjá sé í Hauki. Hann sé þroskaður leikmaður miðað við aldur og geti bæði hjálpað liðinu inni í teig en einnig utan þriggja stiga línunnar.
Turgeon tók við liðinu að loknu tímabilinu í vor og hann slær á létta strengi og segist hafa orðið fyrir sérstökum vonbrigðum því hann hafi lagt það á sig að bera nafn Hauks fram á sómasamlegan hátt.
Í fréttinni segir jafnframt að Haukur hafi verið vinsæll á meðal stuðningsmanna Maryland. Þau ummæli sem stuðningsmenn liðsins hafa skrifað undir fréttina renna stoðum undir þá fullyrðingu.