Finnska landsliðið í körfuknattleik hefur tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumeistaramótsins sem hefst í Litháen eftir 11 daga. Í gærkvöldi mættust Portúgal og Ungverjaland en þessi tvö lönd ásamt Finnum voru að berjast um tvö laus sæti í Litháen. Portúgalir unnu leikinn og tryggðu þar með sjálfum sér og Finnum farseðilinn á EM.
Henrik Dettmann landsliðsþjálfari Finna sagði: ,,Þetta er sögulegur dagur í finnskum íþróttum.“
Finnar hafa einu sinni áður komist í lokakeppni EM en þá töpuðu þeir öllum leikjum sínum í keppninni. ,,Síðustu ár höfum við leikið hörku leiki og nú eru almenningur og fjölmiðlar í Finnlandi komnir með brennandi áhuga fyrir okkur,“ sagði Dettmann ennfremur.
Finnar eiga enn eftir að leika tvo leiki gegn Portúgal og Ungverjum í forkeppninni en úrslitin í þeim leikjum segja til um í hvaða riðli þjóðirnar tvær lenda í Litháen. Sigurliðið lendir í C-riðli með Bosníu, Makedóníu, Króatíu, Svartfjallalandi og Grikklandi. Liðið sem hafnar í 2. sæti í forkeppninni lendir í A-riðli með Pólandi, Bretlandi, Tyrklandi, Litháen og Spánverjum.
Karfan.is setti sig í samband við Friðrik Inga Rúnarsson framkvæmdastjóra KKÍ en hann þekkir vel til Dettmanns og segir vel hafa verið haldið á spilunum hjá finnska körfuknattleikssambandinu.
,,Á sínum tíma réðu Finnar Dettmann sem landsliðsþjálfara og yfirþjálfara finnska sambandsins og var honum falið að stýra landsliðsskútunni. Dettmann átti að byggja upp samfellu í starfinu en hann ræktar samband sitt við sína leikmenn afar vel. Á nokkrum árum sáu Finnar svo að ef vel yrði haldið á spilunum væri möguleiki á því að komast á meðal þeirra bestu,“ sagði Friðrik en fyrsta verkefni Dettmann með Finna sem nýráðinn landsliðsþjálfari og yfirþjálfari finnskra landsliða var Evrópukeppni B-liða árið 2006.
,,Finnar eru með góða leikmenn sem eru að spila í stærstu deildunum. Hann er gamall refur og þjálfaði t.d. finnska liðið sem tapaði öllum sínum leikjum á EM í Grikklandi árið 1995. Að mínu mati er finnska liðið í dag það besta sem þeir hafa átt og þeir eru að uppskera eftir þeirri leið sem farin hefur verið undanfarin ár. Öll yngri landsliðin eru undir hatti A-landsliðsins og þau eru öll að spila nákvæmlega saman körfuboltann og þetta er klárlega eitthvað sem við getum lært af.“
Mynd/ Dettmann hefur stýrt Finnum inn í lokakeppni EM.