„Ég kynntist honum á þeim tíma þegar hann var hjá Chicago Bulls og ég fór þangað til að fylgjast með undirbúningstímabilinu og öðru slíku. Svo fékk ég hann til að koma hingað til lands og vera með þjálfarafyrirlestur árið 2004-2005, við höfum svo haldið sambandi síðan,“ segir Keflvíkingurinn Tómas Tómasson sem nýlega var viðstaddur athöfn þegar bandarískir körfuboltamenn heiðra leikmenn og aðra tengda körfuboltanum fyrir afrek sín á ferlinum. Tómas var í viðtali hjá vf.is í gær.
Að því tilefni eru menn vígðir inn í frægðarhöllina svokölluðu (Hall Of Fame). Tómas var þar gestur þjálfarans Tex Winter sem m.a fann upp hina frægu þríhyrnings-sókn sem Phil Jackson hefur gert ódauðlega en Tómas hefur verið umboðsmaður körfuboltamanna og staðið fyrir námskeiðum og öðru tengdu íþróttinni.