spot_img
HomeFréttirSnæfell Reykjanes Cup meistari

Snæfell Reykjanes Cup meistari

 
Lærisveinar Inga Þórs Steinþórssonar í Snæfell eru Reykjanes Cup meistarar eftir 84-82 sigur á Grindavík í úrslitaleik mótsins sem fram fór í gærkvöldi. Staðan í hálfleik var 46-44 en Jón Ólafur Jónsson gerði 22 stig í liði Hólmara í gærkvöldi.
Leikur þar sem Snæfell náðu strax í upphafi 15-2 forystu en Grindvíkingar náðu henni niður í 34-32 um miðjan annan leikhluta. Því svöruðu Snæfell með sex stigum og leiddu 42-32. Grindvíkingar voru að leika vel og komust yfir 42-43 þegar um ein og hálf mínúta voru eftir. Pálmi og Óskar sáu til þess að koma Snæfell á ný yfir 46-43 en Ólafur Ólafs fékk fjögur vítaskot á síðustu sekúndum fyrri hálfleiksins en nýtti eitt þeirra og staðan í hálfleik 46-44.
 
Flottur kafli í byrjun síðari hálfleiks kom Snæfell yfir 61-49 en miklar sveiflur voru í leiknum, í stöðunni 67-54 skoruðu Grindvíkingar átta stig í röð og staðan eftir þriðja leikhluta 67-62. Jóhann Árni smellti körfu og vítaskoti að auki niður strax í byrjun fórða leikhluta og minnkaði muninn í 67-65. Jón Ólafur smellti þá þrist en Grindvíkingar komust yfir 72-79 með kraftmiklu áhlaupi. Strákarnir skiptu um varnarleik og fóru Jón Ólafur og Pálmi Freyr fyrir stigaskorinu, Jón Ólafur skoraði fyrstu fjögur stigin en svo komu tvö vítaskot frá Pálma, staðan 78-79. Svæðisvörnin virkaði vel hjá Hólmurum en Ármann Vilbergsson smellti niður þrist í horninu og kom Grindavík yfir 78-82. Pálmi fékk tvö vítaskot sem hann smellti niður og staðan 80-82. Snæfellingar stálu boltanum og brunaði Pálmi Freyr alla leið smellti niður sniðskoti úr þröngu færi og fékk víti að auki sem hann setti niður af öryggi. Síðasti möguleiki Grindvíkinga rann út í sandinn og brutu þeir á Sveini Arnari sem fékk tvö vítaskot þegar 0,8 sekúndur voru eftir. Flottur sigur í æsispennandi leik þar sem miklar sveiflur voru í leik liðanna. Lokatölur 84-82.
 
Stigaskor Snæfell: Jón Ólafur 22 stig, Pálmi Freyr 20, Sveinn Arnar 13, Hafþór Ingi og Ólafur Torfa 8, Óskar Hjartar og Snjólfur Björnsson 5 og Egill Egilsson 3.
 
 
Stigaskor Grindavík: Jóhann Árni Ólafsson 19 stig, Ármann Vilbergsson 17, Ólafur Ólafs 14, Þorleifur Ólafs 12, Ómar Sævars 7, Sigurður Þorsteins 6, Morten 3 og Þorsteinn Finnbogason 2.
 
Mynd/ Karl West: Sigurvegarar Snæfells á Reykjanes Cup
Fréttir
- Auglýsing -