Juan Carlos Navarro var réttilega valinn besti maður Evrópumótsins í gær þegar Spánverjar tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn. Vissulega voru engir aukvisar með honum í liðinu en af góðri og gildri ástæðu er maðurinn þekktur sem ,,La Bomba“ eða ,,bomban“ eins og það myndi útleggjast á hinu ástkæra og ylhýra. Ef þú hefur séð leik með Navarro, þá veistu af hverju hann er kallaður bomban!
Navarro er fæddur þann 13. júní árið 1980 í Barcelona og því hefur hann að langstærstum hluta ferilsins verið ,,heima“ ef svo má að orði komast enda einn helsti drifkrafturinn á bak við magnað gengi Börsunga undanfarið. Navarro er 192 sm. að hæð og rétt rúm 90 kg. og er fyrirliði Evrópumeistara Spánar.
Sem unglingur hóf Navarro að leika fyrir Barcelona og var aðeins 17 ára gamall þegar hann lék sinn fyrsta leik í ACB deildinni sem jafnan er talin sú sterkasta á eftir NBA deildinni. Navarro var í hópi Barcelona tímabilið 2002-2003 sem landaði fyrstu þrennunni sinni þegar liðið varð ACB meistari á Spáni, Evrópumeistari í Euroleague og þá vann liðið einnig Spanish King´s Cup, Konungsbikarinn.
Með Barcelona hefur Navarro sex sinnum orðið Spánarmeistari en liðið hampaði titlinum á síðustu leiktíð eftir öruggan 3-0 sigur á Bilbao Basket og hver var valinn besti leikmaður úrslitanna, La Bomba!
Leiktíðina 2007-2008 skildu leiðir hjá Navarro og Börsungum þegar hann gekk til liðs við Memphis Grizzlies í NBA deildinni. Navarro gerði 10,9 stig og tók 2,6 fráköst að meðaltali í leik með Grizzlies og var valinn í ,,2nd All Rookie Team" en strax næsta tímabil samdi hann á ný við Barcelona til fimm ára fyrir litlar 12,5 milljónir evra, næstum tveir milljarðar króna á gengi dagsins í dag.
Á meðal afreka Navarro:
Besti leikmaður á HM U19 árið 1999.
Fimm sinnum valinn í fimm manna lið Euroleague.
Tvisvar sinnum verið valinn besti maður úrslitanna á Spáni, 2009 og 2011.
Besti leikmaður Evrópu árið 2010.