Þjóðverjinn Dirk Nowitzki er ekkert að flýta sér til Evrópu þó verkfall standi fyrir dyrum í NBA deildinni. Kappinn sagði að verkfallið þyrfti að renna vel inn í nóvembermánuð áður en hann færi að skrifa undir samning við lið utan NBA deildarinnar.
Nowitzki sagði við blaðamann ESPN að hann ætli sér ekki að hefja æfingar að nýju fyrr en síðla októbermánaðar nema ef verkbanninu skyldi létt fyrir þann tíma.
,,Nú ætla ég að láta mig hverfa í smá tíma og ná mér í verðskuldaða hvíld sem ég hef ekki áður fengið,“ sagði Nowitzki sem hefur vart farið úr körfuboltaskónum síðan Dallas Mavericks urðu NBA meistarar fyrr á þessu ári.
Þá hyggur Dirk-arinn á hlé frá þýska landsliðinu og ráðgerir að hléið verði amk. tvö ár. Þjóðverjum tókst ekki að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í London 2012 en Nowitzki gæti snúið aftur með þýska landsliðinu 2015 til að berjast með Þjóðverjum fyrir sæti á Ólympíuleikunum 2016 en þá yrði hann 37 ára gamall. Nowitzki gæti því hugsanlega hafa sungið sitt síðasta með Þjóðverjum.
Ef Nowitzki semur utan NBA deildarinnar er ekki líklegt að hann semji við lið í heimalandinu sínu Þýskalandi þó lið eins og Bayern Munchen hafi opnað veskið og reynt að fá hann til liðs við sig. Leikmaðurinn vildi ekki þurfa að gera upp á milli þýskra liða svo Þýskaland er nokkurnveginn úr myndinni hjá honum.