Tómas Holton hefur ákveðið að vera með Fjölnismönnum á komandi leiktíð í Iceland Express deildinni en hann kemur inn sem aðstoðarþjálfari fyrir Bjarna Magnússon sem tók við kvennaliði
Hauka í sumar. Þetta er mikill hvalreki fyrir Fjölnismenn enda Tómas öllum hnútum kunnugur hjá félaginu. Í samtali við karfan.is þá lýsti Örvar Þór Kristjánsson þjálfari Fjölnis yfir mikilli ánægju með það að fá Tómas með sér á bekkinn fyrir komandi vertíð.
,,Tómas Holton er stórkostlegur karakter sem veit ótrúlega mikið um körfubolta og það er mikill styrkur að fá hann til liðs við okkur á ný. Ég var gríðarlega sáttur þegar hann gaf okkur jákvætt svar á að vera með enda þekkir hann strákana einstaklega vel. Það bera allir hjá félaginu gríðarlega mikla virðingu fyrir Tómasi og strákarnir brostu út að eyrum þegar þeim var tilkynnt þetta í haust,” sagði Örvar.
Mynd/ Örvar Kristjánsson þjálfari Fjölnis hefur fengið aðstoðarþjálfara í Tómasi Holton en Örvar tók við þjálfun liðsins af Tómasi snemma á síðasta tímabili.