Nokkrir leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld þar sem okkar menn létu mikið fyrir sér fara að vanda. Sundsvall Dragons unnu Jamtland Basket 94- 79 og Norköpping Dolpins vann Solna Vikings 79-77.
Hlynur Bæringsson fór fyrir sínum mönnum í Sundsvall og skoraði 11 stig, hirti 13 fráköst. Jakob Sigurðsson skoraði 15 stig og gaf 5 stoðsendingar. Pavel Ermolinskij skoraði 7 stig og hirti 9 fráköst. Sundsvall er því í 4. sæti í deildinni eftir leiki kvöldsins með 2 sigra og eitt tap.
Brynjar Þór Björnsson spilaði 25 mínútur gegn Sundsvall, skoraði 3 stig, gaf 2 stoðsendingar og hirti 2 fráköst. Jamtland eru því í 7. sæti deildarinnar eftir 1 sigur og 2 töp.
Logi Gunnarsson spilaði 35 mínútur fyrir Solna Vikings sem rétt töpuðu fyrir Norköpping Dolpings. Logi skoraði 10 stig í leiknum, gaf 7 stoðsendingar og stal 2 boltum. Solna hafa því tapað öllum þremur leikjum sínum á tímabilinu og sitja í 9. sæti af 10 liðum.
Mynd: Jakob var að vanda fyrirferðarmikill í liði Sundsvall.
Gísli Ólafsson