spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Stjörnum prýtt lið ÍG með sigur í Röstinni

Umfjöllun: Stjörnum prýtt lið ÍG með sigur í Röstinni

 Í kvöld þreyttu ÍG-menn frumraun sína í 1. deild en þrátt fyrir það voru það engir nýgræðingar sem mættu til leiks en Guðmundur Bragason og Helgi Jónas Guðfinnsson hafa skipt yfir í ÍG frá UMFG. Það var því gífurleg landsliðsreynsla í byrjunarliði ÍG en auk þeirra tveggja voru það Haraldur Jóhannesson, Helgi Már Helgason og Hjalti Már Magnússon sem byrjuðu leikinn.  Hjá Fsu voru það Sæmundur Valdimarsson, Bjarni Bjarnason, Orri Jónsson, Svavar Stefánsson og spilandi þjálfarinn Kjartan Atli Kjartansson sem byrjuðu leikinn.
 ÍG byrjaði leikinn vel og voru komnir í 7-0 eftir 90 sekúnduleik en þá setti Orri Jónsson niður tvö víti og kom FSu á blaðið og stuttu seinna var staðan orðin 7-8 fyrir FSu. Fyrsti leikhlutinn var ansi fjörugur eftir þetta og skiptust liðin á að skora og var staðan 30-27 fyrir ÍG þegar leikhlutanum lauk og var Gummi Braga komin með 11 stig og Helgi Jónas 8 stig fyrir ÍG en hjá FSu var Kjartan komin með 12 stig, allt úr 3ja stiga skotum. 

Annar leikhluti var svipaður og sá fyrri. Liðin skiptust á að skora en þó hægðist aðeins á stigaskorinu frá fyrri leikhluta og var meiri harka komin í leikinn. Þegar innan við mínúta var eftir af leikhlutanum var staðan 47-46 fyrir ÍG Haraldur skorar 3ja stiga körfu fyrir ÍG og Helgi Jónas stelur síðan boltanum úr innkasti FSu og skorar villa karfa góð og setti niður vítið og staðan þá orðin 53-46. FSu tekur boltann inn og ætlar stilla upp í seinustu sókn leikhlutanst sem endar á því að Haraldur stelur boltanum fyrir ÍG og Helgi Jónas kemst í hraðaupphlaup sem endar með því að hann fær tvö víti og setur annað skotið niður. FSu reynir þá í annað sinn að stilla upp í seinustu sókn leiksins og Bjarni tekur 3ja stiga skot þegar 5 sekúndur eru eftir sem klikkar og boltinn fer út af. Haraldur tekur boltann inn fyrir ÍG við endalínuna og gefur langa sendingu á Helga Jónas sem tekur eitt dripp og tekur svo 3ja stiga skot rétt inn fyrir miðju sem fer beint ofan í á sama tíma og leiktíminn rann út. ÍG skoraði því 10 stig gegn engu á síðustu mínútu leikhlutans og breytti stöðunni úr 47-46 í 57-46 og stemningin öll ÍG megin þegar flautað var til hálfleiks og Helgi Jónas sýndi að hann hefur engu gleymt.

Fátt markverkt gerðist í 3ja leikhluta og leit út fyrir að ÍG myndi landa öruggum 10-15 stiga sigri. Það var ekki fyrr en um miðjan 4ja leikhluta að FSu gaf allt í og kom sér aftur inn í leikinn og átti Orri Jónsson stóran þátt í því og þegar 3 mínútur voru eftir af leiknum jafnaði Þorkell Bjarnason leikinn fyrir FSu er hann setti niður víti og staðan orðin 88-88 og mikil stemning hjá FSu og af sama skapi stress hjá ÍG. Reynsluboltinn Helgi Jónas setti niður þrist strax í næstu sókn og FSu tókst ekki að svara en Gummi Braga setur niður tvö stig og staðan orðin 93-88 fyrir ÍG og 2 mínútur eftir af leiknum. Aftur tekst FSu ekki að skora en þeir reyndu ansi mörg þriggja stiga skot á þessum tíma sem vildu ekki niður. Á hinum enda vallarins klikkuðu ÍG menn líka á þriggja stiga skoti en Helgi Már Helgason náði í mikilvægt sóknarfrákast og skoraði og fékk villu að auki og staðan orðin 95-88 og sigurinn nánast í höfn hjá ÍG. Helgi Már klikkar úr vítinu en báðum liðum voru ansi mislagðar hendur í næstu sóknum og mikið um lélegar sendingar og klaufalegar villur og klikkuðu bæði lið á vítaskotum í lok leiksins. Svo fór að lokum að ÍG vann leikinn 95-91 eftir spennandi og fjörugar lokamínútur.

Bestir í liði ÍG voru reynsluboltarnir Helgi Jónas Guðfinnsson (27 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar) og Guðmundur Bragason (20 stig og 11 fráköst) ásamt Haraldi Jóhannessyni (15 stig) og Helga Már Helgassyni (13 stig). Svo verður að nefna að fyrirliðar meistaraflokksliðs UMFG í knattspyrnu áttu einnig góða innkomu, þeir Óskar Pétursson (2 stig og 5 fráköst) og Orri Freyr Hjaltalín (2 stig).

Hjá FSu báru þeir Orri Jónsson (23 stig), Kjartan Atli Kjartansson (22 stig og 10 fráköst) og Bjarni Bjarnason (21 stig og 11 fráköst) uppi leik liðsins auk þess sem Sæmundur Valdimarsson var duglegur með 13 stig

Umfjöllun: Bryndís Gunnlaugsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -