Það er yfirleitt ákveðinn kliður á internetinu (og annarstaðar) fyrir byrjun Iceland Express deildarinnar. Svona eins og á fyrsta skóladeginum áður en kennarinn kemur inn í stofuna. Einhverjir snúa kannski baki við töfluna, aðrir eru standandi að spjalla. Þetta árið er heldur meiri kliður, meiri öskur og óp, meiri æsingur. Einhver nemandi er að kasta skutlu, tveir eru í slag og svo grætur enn annar út í horni. Kannski hefur einhver pissað á sig, það er óljóst. Punkturinn sem ég er að reyna að koma með er að það er meiri spenna fyrir deildinni þetta árið. Af hverju ætli það sé?
Fyrsta ástæðan held ég að sé NBA deildin. Eða frekar skortur á NBA deildinni. Það er gríðar mikil firra og hroki vestanhafs, beggja vegna samningsborðsins, og leikmennirnir komnir í verkfall. Þeir sem líða hvað mest fyrir þetta verkfall erum við aðdáendurnir. Við fáum enga leiki og enga skemmtun. Þar af leiðandi þurfum við að flytja áhuga okkar einhvert annað. Kannski hafa sumir ákveðið að byggja flöskuskip eða safna frímerkjum en það lítur út fyrir að flestir hafi fært áhuga sinn yfir á íslenska boltann.
Deildin núna er jafnari en áður. Í fyrra voru KRingar með sterkasta liðið og þó þeim hafi verið veittar þónokkrar skráveifur þá gerðu þeir það sem þeir áttu að gera: vinna deildina. Núna er annað upp á teningnum. Það er gríðarlega erfitt að sjá hvaða lið endar á toppnum og mörg lið ansi vel mönnuð. Það er samt oft ekki endilega sama sem merki á milli jafnar deildar og áhuga á deild. Kanadíska deildin í amerísku fótbolta er helfjöfn tímabil eftir tímabil en öllum er alveg sama. Það þarf í fyrsta lagi gæði, sem Iceland Express deildin hefur svo sannarlega, og ég held það þurfi einhverja frekari þróun.
Það hefur til dæmis átt sér stað ákveðin færsla á bæði hæfileikum og titlum undanfarin ár. Fyrir ekki svo löngu voru suðurnesjaliðin illviðráðanleg og var nánast hægt að bóka titilinn í Reykjanesbæ ár eftir ár. Þau lið, því miður fyrir þau, eiga í ákveðnum erfiðleikum um þessar mundir. Það hefur opnað pláss fyrir önnur lið að bæta sig, KR hefur gert vel í því og Stjarnan og ÍR líka. Áhuginn, að því er ég held, kemur því af að sjá einhver önnur lið kljást um og hampa titlinum. Auðvitað væri glapræði að afskrifa til dæmis Keflavík í vetur en þeir eru ekki eins sterkir og þeir hafa verið undanfarin ár.
Svo hefur umfjöllunin um körfuboltan tekið gríðarlegum framförum undanfarið. Karfan.is, sport.is, korfubolti.net, nba ísland og fleiri síður svo dæmi séu tekin, eru með reglubundnar umfjallanir um leiki, leikmenn og annað. Þetta var ekki raunin fyrir stuttu síðan. Þá beið maður eftir helgarblaði DV í von og óvon um að sjá eins og eina frétt um leik Keflavíkur og Njarðvíkur í úrslitum Íslandsmótsins. Það má einnig nefna síðu KKÏ sem er mjög góð. Gott starf hefur verið unnið í umfjöllun um íslenskan körfubolta og deildirnar eru að græða á því.
Það má reikna með æsispennandi og áhugaverðrið Iceland Express deild í ár. Það er engin NBA deild til þess að færa áhugann eitthvert annað, flestöll liðið geta unnið flestöll liðin og svo verður umfjöllunin að sjálfsögðu til fyrirmyndar.
Magnús Björgvin Guðmundsson.