spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Stjarnan hélt Valsmönnum fjarri

Umfjöllun: Stjarnan hélt Valsmönnum fjarri

 
Stjörnumenn unnu sinn annan leik í röð í Iceland Express deildinni í kvöld þegar nýliðar Vals komu í heimsókn í Ásgarðinn. Valsmenn höfðu nokkur tækifæri til þess að berja sig upp að hlið Garðbæinga en nýttu þau tækifæri ekki nægilega vel og því hafa nýliðarnir tapað tveimur fyrstu deildarleikjunum sínum. Lokatölur voru 96-78 þar sem Justin Shouse gerði 27 stig fyrir Stjörnuna og Curry Collins 24 í liði Vals.
Heimamenn í Garðabæ tóku fljótt undirtökin og leiddu fyrst 14-4 og svo 22-12 í fyrsta leikhluta en gestirnir af Hlíðarenda rönkuðu smám saman við sér en staðan 35-19 að loknum fyrstu tíu mínútunum og Hlíðarendapiltar nokkuð vissir í sinni sök, gyrða í brók eða bíða afhroð.
 
Valsmenn mættu mun beittari inn í annan leikhluta og byrjuðu 2-12 með góðri baráttu. Að sama skapi virtust heimamenn komnir á hælana eftir að hafa látið 35 stigum rigna á gesti sína í fyrsta fjórðung.
 
Austin Magnus Bracey átti fínar rispur í liði Vals í öðrum leikhluta, gestirnir börðust vel fyrir sínum fráköstum enda höfðu Garðbæingar ekki fyrir því að stíga út á löngum köflum. Undir lok fyrri hálfleiks hristu heimamenn af sér slyðruorðið með Marvin Valdimarsson sem sitt helsta vopn. Með sterkum endaspretti og flautuþrist frá Justin Shouse stóðu leikar 54-41 í hálfleik.
 
Igor Tratnik var með 11 stig og Austin Magnus Bracey 10 hjá Val í leikhléi. Hjá Stjörnunni var Marvin Valdimarsson með 15 stig og Justin Shouse 14.
 
Stjarnan opnaði síðari hálfleik 5-0 og leiddu 59-41, Marvin Valdimarsson kom snöggtum síðar með þrist og Garðbæingar komust í 65-53. Valsmenn voru þó ekki af baki dottnir og Darnell Hugee barðist ágætlega hjá rauðum. Grimmdina vantaði í Val til að berja sig upp að hlið Stjörnunnar og þó Valur hefði unnið þriðja leikhluta 22-25 leiddu Garðbæingar samt 76-66 fyrir fjórða og síðasta fjórðung.
 
Þegar líða tók á fjórða leikhluta ráku Stjörnumenn náðarhöggið, Jovan Zdravevski skellti þá niður tveimur þristum með skömmu millibili og Garðbæingar komnir í 88-68. Þetta reyndist meira en nóg og fengu minni spámenn að klára leikinn og gerðu það bara nokkuð ágætlega. Valsmenn sýndu batamerki á sínum leik í kvöld en betur má ef duga skal.
 
Stjarnan er því á toppnum ásamt Njarðvík, Grindavík og Snæfell sem öll hafa unnið tvo fyrstu mótsleikina sína.
 
Stigaskor:
 
Stjarnan: Justin Shouse 27/5 fráköst, Marvin Valdimarsson 22/6 fráköst, Keith Cothran 15/5 fráköst, Jovan Zdravevski 9/4 fráköst, Fannar Freyr Helgason 7/4 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 6/4 fráköst, Guðjón Lárusson 4, Dagur Kár Jónsson 4, Sigurbjörn Ottó Björnsson 2, Kormákur Arthursson 0, Aron Kárason 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0.
 
Valur: Curry Collins 24/4 fráköst, Austin Magnus Bracey 17, Igor Tratnik 13/10 fráköst, Darnell Hugee 8/8 fráköst/3 varin skot, Birgir Björn Pétursson 5/5 fráköst, Snorri Þorvaldsson 4, Bergur Ástráðsson 3, Benedikt Blöndal 2, Kristinn Ólafsson 2, Sigurður Skúli Sigurgeirsson 0, Bjarni Geir Gunnarsson 0, Alexander Dungal 0.
 
Dómarar: Georg Andersen, Steinar Orri Sigurdsson
 
Stiklur
-Jovan Zdravevski var kominn í hóp Stjörnunnar á ný en hann missti af fyrsta leiknum gegn Tindastól af persónulegum ástæðum.
-Ragnar Gylfason var ekki í Valsbúning í kvöld, mættur í borgaralegum klæðum við hlið Ágústar Björgvinssonar á Valsbekknum.
 
 
Myndir og umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -