Stjörnumaðurinn Guðjón Lárusson er Gatorade-leikmaður fyrstu umferðar í Iceland Express deild karla. Guðjón kom af Stjörnubekknum í fyrstu umferð og setti 18 stig gegn Tindastól í fjarveru Jovans Zdravevski.
Guðjón lék í tæpar 23 mínútur í leiknum og gekk Garðbæingum hvað best þegar hann var inni á vellinum. Guðjón setti 8 af 10 teigskotum sínum og bæði vítin í leiknum og splæsti í frammistöðu sem allir þjálfarar óska frá sínum mönum sem koma af tréverkinu.
Karfan.is ræddi við Guðjón í gærkvöldi eftir sigur Stjörnunnar á Val í annarri umferð:
,,Við vinnum fyrstu tvo leikina okkar í mótinu og maður getur ekki verið annað en sáttur við það. En ég endurtek bara orð liðsfélaga míns Jovans Zdravevski, við unnum en þetta er ekki fegurðarsamkeppni. Þetta telur samt og það er ekkert lið sem maður getur bókað auðveldan sigur gegn í þessari deild og maður þarf að hafa virkilega fyrir þessu, svo framarlega að sigurinn komi í hús þá telur það. Gegn Val fengu allir að spila og það gefur aukna reynslu, ég fann mig vel gegn Tindastól í fyrstu umferð en ekki nægilega í Valsleiknum og þá skiptir það máli að aðrir séu klárir og þannig var það í kvöld enda erum við með breiðan hóp.“
Mynd/ [email protected] – Guðjón Lárusson sáttur með kippu af Gatorade fyrir vasklega framgöngu sína af tréverkinu gegn Tindastól í fyrstu umferð.