spot_img
HomeFréttirErlendum leikmönnum hefur fækkað: Hverjir hætta að horfa og byrja að spila?

Erlendum leikmönnum hefur fækkað: Hverjir hætta að horfa og byrja að spila?

 
Sandpappírsgrófur útdráttur á fjölda erlendra leikmanna í Iceland Express deild karla á síðustu leiktíð og þessari sýnir svo að ekki verður um villst að færri erlendir leikmenn eru á mála hjá liðunum 12 heldur en síðasta tímabil.
Þegar leiktíðin hófst í fyrra voru 26 erlendir leikmenn á mála hjá 12 liðum í efstu deild karla. Í fyrstu umferð þessa leiktíðina voru 22 erlendir leikmenn á mála hjá liðunum en Grindvíkingar bættu við sig einum í annarri umferð og Þór Þorlákshöfn líka svo það má segja að nú séu 24 erlendir leikmenn í deildinni, þremur færri en í fyrstu umferð á síðustu leiktíð.
 
Vissulega var það KFÍ sem skekkti myndina í fyrra og hóf leiktíðina með sex erlenda leikmenn en í ár eru það Valsmenn sem hafa flesta eða þrjá talsins.
 
Eins og öllum er kunnugt þá var samþykkt á síðasta körfuknattleiksþingi KKÍ að heimila tvo Bandaríkjamenn í hverju liði. Átta lið af 12 hafa nú tvo erlenda leikmenn og eflaust eiga breytingarnar eftir að verða einhverjar. Í fyrra varð raunin sú að í síðustu umferðinni hafði fjölgað um einn erlendan leikmann, úr 26 í 27.
 
Umræðan um erlenda leikmenn er eilíf og sitt sýnist hverjum, með tilkomu tveggja bandarískra leikmanna í nánast hvert lið deildarinnar hefur borið á því að fleiri íslenskir leikmenn hafa orðið að áhorfendum. Yfirlit yfir tölfræðileiðtoga fyrstu tveggja umferðanna sanna ofangreinda fullyrðingu. Aðeins Ægir Þór Steinarsson leikmaður Fjölnis blandar sér almennilega í baráttuna í 2. sæti yfir flestar stoðsendingar að meðaltali í leik.
 
Leikur eins og viðureign KR og Þórs Þorlákshafnar skrifast að miklu leyti á of mikið framlag erlendra leikmanna, þ.e. að ef íslenskir leikmenn nýliða Þórs hefðu þorað að taka meiri þátt í leiknum hefðu Bandaríkjamennirnir ekki verið sprungnir á limminu eftir c.a. 33 mínútna leik. KR rúllaði vel á sínum hóp, fékk mikilvægt framlag frá íslenskum leikmönnum eins og Hreggviði og tóku stigin tvö sem í boði voru.
 
Liðin eru að slípa sig til, keppnin í augnablikinu snýst um hvaða lið verða fyrst til þess að virkja íslenska leikmannahópinn og hafa álag á leikmönnum sem eðlilegast. Þau lið sem best standa sig í þessu verða fljót að finna sér stöðu við topp deildarinnar.
 
Neðangreint er miðað við erlenda leikmenn á skýrslu í hvert skipti:
 
Erlendir leikmenn í fyrstu umferð tímabilið 2010-2011
 
KFÍ (6)
Tindastóll (4)
ÍR (3)
Snæfell (3)
Stjarnan (1)
Hamar (2)
Haukar (2)
Grindavík (2)
KR (1)
Njarðvík (1)
Fjölnir (1)
Keflavík (0)
 
Alls 26 erlendir leikmenn í fyrstu umferð á síðustu leiktíð.
 
Erlendir leikmenn í 22. umferð tímabilið 2010-2011
 
KFÍ (5)
Snæfell (3)
Stjarnan (2)
Tindastóll (3)
ÍR (3)
Njarðvík (3)
Grindavík (3)
Haukar (2)
KR (1)
Fjölnir (1)
Keflavík (1) (Thomas Sanders var hjá liðinu en lék ekki leikinn)
Hamar (0)
 
Alls 27 erlendir leikmenn í síðustu umferð á síðustu leiktíð
 
Erlendir leikmenn í fyrstu umferð tímabilið 2011-2012
 
Valur (3)
Fjölnir (2)
ÍR (2)
KR (2)
Þór Þorlákshöfn (2)
Keflavík (2)
Snæfell (2)
Njarðvík (2)
Tindastóll (2)
Grindavík (1)
Haukar (1)
Stjarnan (1)
 
Alls 22 erlendir leikmenn í fyrstu umferð þessa leiktíðina. (24 í annarri umferð)
 
Fréttir
- Auglýsing -