spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: KR kældi niður heitasta liðið

Umfjöllun: KR kældi niður heitasta liðið

 
Íslands- og bikarmeistarar KR gerðu sitt og tóku tvö stig í kvöld gegn liðinu sem allir eru að tala um. Njarðvíkingar máttu þola 85-74 ósigur gegn KR í Iceland Express deild karla og hafa nokkuð væna máltíð að melta eftir leik kvöldsins. Þéttofinn varnarleikur KR var Njarðvíkingum um megn á löngum kafla í þriðja leikhluta og þá var Cameron Echols ekki jafn drjúgur á blokkinni fyrir græna líkt og hann var í síðustu umferð gegn Haukum. KR batt því tímabundinn enda á Njarðvíkurgleðina eftir tvo frækna sigra í fyrstu umferðunum.
 
Hreggviður Magnússon kippti leiknum í gang með þriggja stiga körfu fyrir KR og átti svo heiðurinn að sjö fyrstu stigum liðsins, skoraði 5 sjálfur og gaf stoðsendinguna í næstu körfu. Fljótt fóru að síga tvær grímur á Njarðvíkinga sem áttu erfitt með að koma böndum yfir Hreggvið og ekki leið á löngu uns grænir prófuðu svæðisvörn, það varnarafbrigði notuðust þeir við að mestu til leiksloka.
 
David Tairu fékk tvær villur snemma í fyrsta leikhluta og hafði sig hægan í fyrri hálfleik en KR hafði engu að síður frumkvæðið og leiddi 27-22 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Leikurinn var hraður og opinn en Njarðvíkurvörnin lak á stöku stað og KR-ingar gerðu vel að ráðast á veiku blettina og héldu því forystu allan annan leikhluta. Hraðinn var mikill og nokkur mistök á báða bóga sem fylgdu í kjölfarið og allt benti til þess að KR færi með yfirhöndina í leikhlé uns Ólafur Helgi Jónsson skellti niður Njarðvíkurþrist þegar um sekúnda var til leiksloka og staðan 41-41 í hálfleik.
 
Hreggviður Magnússon var stigahæstur KR-inga með 11 stig í leikhléi og 3 villur og næstur var David Tairu með 10 stig. Emil Þór Jóhannsson átti fína spretti í fyrsta leikhluta en sást minna í öðrum. Hjá Njarðvík fór Cameron Echols hægt og bítandi í gang og var með 13 stig og 9 fráköst í leikhléi og Travis Holmes 7 stig. Þá voru þeir Elvar Friðriksson og Ólafur Helgi með fínar rispur inn á milli.
 
Travis Holmes opnaði þriðja leikhluta eins og Njarðvíkingar lokuðu fyrri hálfleik, með þriggja stiga körfu en heimamenn í KR gerðu þá næstu 16 stigin gegn tveimur frá Njarðvík! Vörn meistaranna gerði gestunum erfitt um vik, fá göt til að smeygja sér í gegnum og á hinum endanum áttu Njarðvíkingar ávallt í basli með Hreggvið Magnússon þegar hann fékk boltann.
 
Röndóttir leiddu 66-60 að loknum þriðja leikhluta sem var töluvert hægari og þyngri en fyrri hálfleikurinn og Njarðvíkingum blæddi þar sem Cameron Echols var ekki jafn skotviss á blokkinni líkt og í annarri umferð.
 
Kristófer Acox átti góðar rispur í fjórða leikhluta en á þessum lokaspretti fengu Njarðvíkingar nokkur fín tækifæri til að komast upp að hlið KR en heimamenn héldu sínu og kláruðu leikinn 85-74. Björn Kristjánsson kom upp með boltann fyrir KR í kvöld í fjarveru Edward Horton og komst vel frá sínu með 5 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar.
 
Hjá Njarðvík voru þeir Travis Holmes og Cameron Echols áberandi en Echols fór á löngum köflum í of mikið einstaklingsframtak og þegar um fjórar mínútur voru til leiksloka fékk Holmes slæma byltu og fann til í hægra hné og lék ekki meira í leiknum. Þá áttu þeir Elvar Friðriksson og Ólafur Helgi Jónsson einnig sínar stundir.
 
Ungir leikmenn Njarðvíkurliðsins þurfa ekkert að skammast sín fyrir frammistöðuna í kvöld, DHL-Höllin er sterkur heimavöllur og þar tapar KR ekki oft. Röndóttir voru aðeins of stór biti að þessu sinni en grænir gerðu hreinlega of mikið af grundvallarmistökum eins og að stíga ekki út og fá körfu í bakið fyrir vikið.
 
 
Byrjunarliðin:
 
KR: David Tairu, Björn Kristjánsson, Emil Þór Jóhannsson, Hreggviður Magnússon og Finnur Atli Magnússon.
 
UMFN: Elvar Friðriksson, Ólafur Jónsson, Travis Holmes, Hjörtur Hrafn Einarsson og Cmeron Echols.
 
Dómarar leiksins: Einar Þór Skarphéðinsson og Georg Andersen
 
Stiklur:
-Ágúst Angantýsson, Ólafur Ægisson og Edward Horton allir í borgaralegum klæðum á bekk KR í kvöld.
-Fannar Ólafsson fylgdist með leiknum við innganginn í salinn og ræddi þar við alla, þjálfara gestaliðsins, dómara og stuðningsmenn beggja liða. Litríkur jafnvel utan vallar.
-Nýtingin í teignum hjá Cameron Echols komst ekki í hálfkvist við Haukaleikinn í síðustu umferð, þetta hafði mikið að segja í leik Njarðvíkinga í kvöld, Echols var með 6 af 16 í teigskotum.
-Oddur Rúnar Kristjánsson og Darri Freyr Atlason fengu að koma inn á síðustu sekúndum leiksins í liði KR, þetta var þeirra fyrsta innkoma í meistaraflokksleik, til lukku drengir.
 
Stigaskor:
 
KR: David Tairu 23, Hreggviður Magnússon 20/9 fráköst, Finnur Atli Magnusson 17/7 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Þór Jóhannsson 11/5 fráköst/5 stoðsendingar, Björn Kristjánsson 5/7 fráköst/6 stoðsendingar, Jón Orri Kristjánsson 3/8 fráköst, Kristófer Acox 2/10 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 2/4 fráköst, Martin Hermannsson 2, Páll Fannar Helgason 0, Oddur Rúnar Kristjánsson 0, Darri Freyr Atlason 0.
 
Njarðvík: Travis Holmes 20/10 fráköst/5 stoðsendingar, Cameron Echols 18/15 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 13/7 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 10, Elvar Már Friðriksson 7/7 stoðsendingar, Rúnar Ingi Erlingsson 4, Maciej Stanislav Baginski 2, Hilmar Hafsteinsson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Sigurður Dagur Sturluson 0, Styrmir Gauti Fjeldsted 0, Oddur Birnir Pétursson 0.
 
Myndir og umfjöllun Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -