Þór Þorlákshöfn vann dramatískan sigur á deildarmeisturum Snæfells í Iceland Express-deild karla í körfubolta í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Marko Latinovic tryggði 85-83 sigur með flautukörfu.
Þór skoraði sjö síðustu stig leiksins á síðustu mínútu leiksins og hreinlega stal sigrinum sem virtist blasa við Snæfelli.
Heimamenn byrjuðu leikinn frábærlega vel studdir af Græna drekanum og voru komnir tíu stigum yfir, 13-3, þegar rétt tæplega fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Snæfell náði að minnka muninn í fjögur stig fyrir lok fyrsta leikhluta, 18-14.