Þremur umferðum er lokið í Iceland Express deild karla og nú eru aðeins tvö lið í deildinni sem enn hafa ekki tapað leik, toppliðin Stjarnan og Grindavík unnu góða sigra í umferðinni, Stjarnan lagði Hauka að Ásvöllum og Grindavík vann ÍR í Röstinni. Þá var dramatík í Þorlákshöfn þar sem nýliðar Þórs lögðu Snæfell með flautukörfu og þjálfari Tindastóls sagði upp störfum.
Úrslit umferðarinnar:
Grindavík 87-73 ÍR
Valur 80-110 Keflavík
Tindastóll 89-97 Fjölnir
Þór Þorlákshöfn 85-83 Snæfell
KR 85-74 Njarðvík
Haukar 68-89 Stjarnan
Grindavík 87-73 ÍR
ÍR-ingar urðu fyrir töluverðri blóðtöku í leiknum, Jimmy Bartolotta nefbrotnaði illa í samstuði við J´Nathan Bullock og var fluttur á sjúkrahús og þá meiddist Sveinbjörn Claessen á hné. Grindavík fékk framlög úr öllum áttum á meðan ÍR tapaði sínum öðrum deildarleik í röð.
Valur 80-110 Keflavík
Steven Gerard fór mikinn í liði Keflavíkur sem vann öruggan og þægilegan sigur í Vodafonehöllinni. Nýliðum Vals var spáð strax aftur falli í 1. deild og því miður hafa þeir lítið sýnt til að afsanna þær spár. Keflvíkingar eru svo til alls líklegir eftir að Gerard bættist í hópinn með þeim Jarryd Cole og Charles Parker.
Tindastóll 89-97 Fjölnir
Fyrir viðureign liðanna voru þau bæði án stiga og því mikið í húfi. Árni Ragnarsson og Nathan Walkup fóru fyrir Fjölni í leiknum sem fann sín fyrstu stig og í kjölfarið sagði Borce Ilievski skilið við Tindastól. Hátt fer um þessar mundir að Bárður Eyþórsson verði næsti þjálfari Stólanna.
Þór Þorlákshöfn 85-83 Snæfell
Hólmarar töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu með flautukörfu frá Þórsurum. Ingi Þór Steinþórsson var allt annað en sáttur við málalokin og benti á að annar dómari leiksins hefði verið að ræða við ritaraborð þegar hinn setti leikinn í gang og af stað fór sókn þar sem Þór gerði flautukörfu. Spennuslagur engu að síður og úrslitin standa og Þórsarar stimpla sig rækilega inn í deildina með sigrum á ÍR og Snæfell eftir naumt tap gegn KR í fyrstu umferð, ekki amalaleg leikjatjörn svona í upphafi hjá nýliðunum.
KR 85-74 Njarðvík
KR mætti til leiks án Edward Horton, Ágústs Angantýssonar og Ólafs Ægissonar. Njarðvíkingar höfðu fyrir viðureignina ekki tapað leik en Hreggviður Magnússon lék þá oft grátt og úr varð hörkuleikur. Njarðvíkingar gerðu of mörg grunnmistök í leiknum og það nýtti KR sé vel og hirtu bæði stigin.
Haukar 68-89 Stjarnan
Garðbæingar eru á toppi deildarinnar með Grindavík og höfðu það nokkuð náðugt að Ásvöllum. Haukar hafa ekki bætt við sig bandarískum leikmanni síðan félagið lét Mike Ringgold fara og er liðið án stiga á botninum ásamt Val og Tindastól.
Stigahæstu menn
Brandon Cotton – Snæfell – 35,33
Darrin Govens – Þór Þorlákshöfn – 31,67
David Tairu – KR – 25,67
Stoðsendingar
Giordan Waston – Grindavík – 7,00
Calvin O´Neal – Fjölnir – 6,67
Justin Shouse – Stjarnan – 6,33
Fráköst
Quincy Hankins-Cole – Snæfell – 15,33
Mike Ringgold – Þór Þorlákshöfn – 13,33
Cameron Echols – Njarðvík – 12,00
Framlag
Darrin Govens – Þór Þorlákshöfn – 29,00
Brandon Cotton – Snæfell – 28,33
Quincy Hankins-Cole – Snæfell – 27,33
Stolnir boltar
Jovanni Shuler – Haukar – 4,0
Travis Holmes – Njarðvík – 4,0
Justin Shouse – Stjarnan – 3,67
Varin skot
Darnell Hugee – Valur – 2,0
Jón Ólafur Jónsson – Snæfell – 1,33
Trey Hampton – Tindastóll – 1,0
Mynd/ Hjalti Vignis: Benedikt Guðmundsson hefur unnið tvo síðustu leiki með Þór í Þorlákshöfn.