spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Græni drekinn gerir Icelandic Glacial Höllina að skemmtilegasta heimavelli landsins

Umfjöllun: Græni drekinn gerir Icelandic Glacial Höllina að skemmtilegasta heimavelli landsins

 
Keppni hófst í A-riðli Lengjubikars karla með leik Þórs og ÍR í Icelandic Glacial Höllinni í kvöld. Byrjunarlið Þórs : Baldur, Ringgold, Govens, Darri og Grétar. Byrjunarlið ÍR: Ellert, Sovic, Johnson, Hjalti og Kristinn. Þór byrjaði leikinn með þvílíkri flugeldasýningu og komust í 14-4 með góðri keyrslu og frábærri vörn. ÍR-ingar tóku þá leikhlé til að stilla sinn leik af. ÍR-ingar komu sterkir inn eftir leikhléið og styrktu hjá sér vörnina þannig að jafnræði var með liðunum til enda leikhlutans. Staðan eftir 1. leikhluta 26-15 Þór í vil.
2. Leikhluti fór hægt af stað. Ekki var sama keyrsla og í 1. leikhlutanum en Þór þó alltaf skrefinu á undan og juku muninn. ÍR skoraði sína fyrstu körfu í leikhlutanum þegar rúmar 4 mínútur voru liðnar. Liðin gerðu mikið af mistökum í sókninni í þessum leikhluta en bæði lið voru að spila mjög góða vörn. Þór hélt forystu sinni út leikhlutann og staðan í hálfleik var 42-34 Þór í vil. Atkvæðamestir hjá Þór voru Darri með 10 stig, Govens 9 stig, Marko með 6 stig, Baldur með 5 stig og 2 stoðsendingar. Hjá ÍR var Hjalti með 15 stig, Sovic með 9 stig og Eiríkur með 6 stig.
 
Þór byrjaði vel í seinni hálfleik og komust í 52-38 þegar um 3 mínútur voru liðnar. ÍR ingar komu sterkir til baka en Þór tókst þó alltaf að halda um 10 stiga forystu. Gríðarleg harka var í leiknum og menn fengu að berjast mikið undir körfunni. Staðan eftir 3. Leikhluta var 66-53 Þór í vil.
 
 
Þórsarinn Emil Karel kom inná í 4. Leikhluta eins og stormsveipur með sóknarfrákast, setti svo niður fjögur fyrstu stigin og varði skot hjá Hjalta. Þá kom Kristinn Jónasar og tróð í hraðaupphlaupi. ÍR skipti yfir í svæðisvörn og gekk mjög erfiðlega fyrir Þór að finna körfuna. ÍR minnkaði muninn jafnt og þétt. Munurinn var kominn niður í 6 stig en þá keyrðu heimamenn upp hraðann og bættu í stigamuninn. Þá tók Gunnar þjálfari ÍR leikhlé í stöðunni 83-73. Ekki virkaði leikhléið sem skildi hjá ÍR því Þórsarar komu sterkir inn og styrktu stöðu sína. Kiddi fékk sína 5. villu og fylgdi tæknivilla í kjölfarið og kom Þór þessu í 16 stiga mun sem ÍR minnkaði svo í 14 stig en þar við sat. Sigur Þórs var aldrei í hættu. Lokastaðan var 90-76 Þór í vil.
 
Gríðarleg stemning var í Icelandic Glacial höllinni í kvöld og fór Græni drekinn gjörsamlega á kostum og létu vel í sér heyra. Þeir sönnuðu það að þetta er klárlega skemmtilegasti heimavöllurinn á Íslandi. Önnur félög mættu taka sér þá til fyrirmyndar.
 
Govens var stigahæstur hjá heimamönnum með 19 stig, Darri var með 17 stig og 5 fráköst, Grétar 14 stig og 4 fráköst, Ringgold 10 stig og 11 fráköst, Gummi 9 stig, Baldur 7, Marko 6 , Emil 5 og Þorsteinn með 3 stig.
 
Hjá ÍR var Hjalti með 22 stig og 6 fráköst, Sovic 17, Eiríkur 11, Kristinn 9, Dungal 7, Ellert 6 og williard með 4 stig.
 
Dómarar leiksins voru Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Steinar Orri Sigurðsson og stóðu þeir sig með miklum sóma.
 
Umfjöllun: HH
Mynd 1: Hjalti Vignis: Græni drekinn í ham
Mynd 2: Davíð Þór Guðlaugsson: Darrin Govens á ferðinni.
Fréttir
- Auglýsing -