Ingi Þór: Veit að dómarar halda áfram að gera sitt besta - Karfan
spot_img
HomeFréttirIngi Þór: Veit að dómarar halda áfram að gera sitt besta

Ingi Þór: Veit að dómarar halda áfram að gera sitt besta

 
Karfan.is leitaði viðbragða hjá Ing Þór Steinþórssyni en eins og við greindum frá í morgun hefur gengið á ýmsu hjá Snæfellsliðunum í upphafi leiktíðar. Við inntum Inga eftir því hvort andaði köldu á milli hans og íslensku dómarastéttarinnar og það vildi hann ekki kannast við.
Einn leikur í bann, fyrir litlar sakir segir þú, er ekki eðlilegt að menn fari í bann eftir tvær tæknivillur?
 
Jú, regluverkið segir að ef þjálfarar fái tvær tæknivillur verði þeir að yfirgefa völlinn og fá sjálfkrafa leikbann, þó svo að ekki allir þjálfarar hafi setið við sama borð í þeim efnum á síðustu leiktíð en það er annað mál. Mér fannst í þessum leik ég hvorki vera með óhófleg mótmæli né að niðurlægja nokkurn mann. Ég hef ekki sagt orð alla þá leiki sem liðin mín hafa spilað í haust. Í umræddum leik gegn KR var frammistaða dómara leiksins ekki góð að matri allra þeirra sem að honum kom. Sú ákvörðun þeirra að senda mig úr húsi vegna tæknivilla dapurleg en staðreynd sem ég mun bara takast á við með mínu fólki. En í atvikalýsingu segir að ég hafi fengið síðari tæknivilluna fyrir óhófleg mótmæli en þeir sem á leiknum voru og í kringum liðin sáu og heyrðu betur, á karfan.is segir t.d. að mér hafi verið vikið úr húsi fyrir litlar sakir. Ég veit að eftirlit með dómurum kostar peninga og því miður hefur körfuknattleikshreyfingin ekki bakland í svoleiðis baráttu. En það er nauðsynlegt að dómurum sé veitt aðhald, sérstaklega ef framkoma mín í leiknum á sunnudag sé "ófhófleg". Dómarar verða að mæta afslappaðir til leiks og lesa leikinn rétt ásamt því að hafa smá húmor fyrir lífinu sjálfu. Það er svo stutt og yndislegt!
 
Það hefur gengið á ýmsu hjá þér með Snæfellsliðin og fræg er orðin flautukarfan í Þorlákshöfn. Andar köldu á milli þín og dómarastéttarinnar?
 
 
Nei, alls ekki, þetta eru toppmenn sem eru í dómgæslunni og þeir gera mistök rétt einsog við allir hinir, sennilega færri en við þjálfarar svo ég tali nú ekki um leikmenn. Dómarar hafa mína virðingu, ekki spurning. Í þessum leik réðust úrslit leiksins ekki á dómgæslu og mér finnst umfjöllunin hafa verið sett úr samhengi, mér fannst leikurinn mjög vel dæmdur en ég var vissulega ekki sáttur við að annar dómari leiksins skyldi ekki sjá loka playið sem réði úrslitum. Dómarar gera mistök og eiga að geta viðurkennt þau líka, ég hefði verið til í komment þeirra eftir leikinn til mín að þeir hefðu gert mistök punktur. Ég lærði það 17 ára í dómaraprófi að áður en maður setur boltann í leik eigi maður að ná augnsambandi við meðdómara sinn og gefa honum merki að allt sé klárt fyrir að setja boltann í leik. Það á ekki að skipta máli hvort að leikurinn sé að byrja eða enda. Svona er lífið yndislegt og það besta við þetta allt saman er að lífið er fullt af tækifærum, á morgun er nýr leikur og þá eru ný tækifæri. Þau ætla ég að nýta mér sem og liðið mitt og ég veit að dómarar halda áfram að gera sitt besta einsog alltaf.
 
Þið sendu Brandon Cotton frá félaginu á dögunum, eruð þið búnir að fá inn nýjan leikmann?
 
 
Í sumar leitaði ég að leikstjórnanda og manni undir körfuna. Ég taldi mig hafa fundið mjög hæfileikaríka leikmenn sem myndu gera liðið betra. Annað kom á daginn, fyrir þá sem lásu í barnæsku bókina um hann Palla sem var einn í heiminum þá ættu þeir að skilja hvað ég tala um. Ég réð leikstjórnanda til að stýra liðinu en þegar við vorum komnir nokkuð áfram var niðurstaðan einn mesti skorari sem ég hef séð. Leikmaðurinn passaði engann veginn inní það sem okkur vantaði og því var niðurstaðan breyting. Við munum tilkynna nýjan leikmann eftir korter, en frændi hans Siggi Hall er að kokka saman alla pappíra og fleira.
 
 
Hvernig finnst þér boltinn fara af stað annars?
 
Mér finnst þetta fara skemmtilega af stað á öllum vígstöðvum og ég tel að liðin eigi eftir að laga sig til fram að áramótum, Grindavík og Stjarnan karlamegin svona í upphafi greinilega með þéttustu hópana en við sjáum hvað kemur uppúr kjörkössunum í lokin. Kvennamegin virðast öll lið ætla að rífa stig af hvort öðru á einn eða annan hátt þannig að þetta verður bara skemmtilegur vetur þar sem góður körfubolti er aðalmálið.
Þrátt fyrir nokkuð góða brekku síðustu vikuna fyrir okkur í Snæfell þá veit ég að krafturinn undan jökkli muni skila okkur þéttum og flottum á völlinn.
Áfram Snæfell og áfram körfubolti! Líf og fjör, Ingi Þór
 
Fréttir
- Auglýsing -